Auður segist vita hverjir dreifðu sögum um sig: „Ég hef ekkert um þetta fólk að segja“

Tónlistarmaðurinn Auðunn Lúthersson, sem er betur þekktur sem Auður, opnaði sig í viðtali við DV sem birtist í dag. Hann hefur ekki verið áberandi í sviðsljósinu síðastliðið ár eftir að ásakanir honum á hendur komust í sviðsljósið.

Auður segist vilja taka ábyrgð á hegðun sinni, sem hann segir að hafi verið óviðunandi í einhverjum tilfellum, en í öðrum tilfellum vill hann meina að um hafi verið að ræða sögusagnir og orðróma.

Á meðal þeirra sögusagna eru orðrómar um þöggunarsamninga, en hann segir að þeir séu hreinlega ekki til, og það sé ástæðan fyrir því að þeir hafi aldrei litið dagsins ljós.

„Auðvitað ekki. Því þeir eru ekki til,“

Auður segist ekki vita hvaðan rót sögusagnanna komi. Þó segist hann vita hverjir dreifðu þeim, en blaðamaður DV spurði hann hvernig hann hugsaði til þess fólks. Þá svaraði Auður:

„Mig langar að trúa því að þetta sé velviljað fólk sem var með rangar upplýsingar í höndunum. Þegar fólk dreifir svona lygi, beint eða óbeint, á netinu eða manna á milli, þá er það auðvitað að gera mistök. Kannski gerir það sér ekki grein fyrir hversu særandi og ljótt þetta er fyrir þann sem talað er um. Ég myndi líka halda að það væri skaðlegt fyrir mikilvægan málstað að gefa ósönnum orðrómi einhverja vigt. Ég hef ekkert um þetta fólk að segja. Ég vil því bara vel.“

Hægt er að lesa viðtalið í heild sinni á vef DV.