Átta ára piltur hætt kominn: „Þetta á ekkert að vera í sölu“

„Þetta á ekkert að vera í sölu. Það er ekki flóknara en það,“ segir faðir átta drengs sem þurfti að verja nóttinni á Landspítalanum eftir að hafa leikið sér með vísindasett sem keypt var hér á landi.

Þannig er mál með vexti að sonur mannsins, sem vildi ekki láta nafn síns getið, var með tveimur vinum sínum að leika sér með vísindasett, The Chemistry Laboratory, sem sagt er henta börnum, 8 ára og eldri, sem hafa áhuga á vísindum og efnafræði. Með settinu fylgja ýmis efni og leiðbeiningar um blöndun þeirra.

Meðal þeirra efna sem er í settinu er svokallað koparsúlfat sem getur reynst hættulegt, jafnvel banvænt, sé þess neytt í miklu magni. Faðir drengsins segir í samtali við Hringbraut að drengirnir hafi leikið sér með settið og í ógáti smakkað á einni blöndunni. Hann greindi fyrst frá málinu í fjölmennum hópi á Facebook í gær þar sem hann varaði við settinu.

Það var piltunum og þá einna helst syni mannsins til happs að það sást til þeirra og því var hægt að bregðast skjótt við. Allir fóru þeir á Landspítalann þar sem þeir gengust undir rannsóknir og blóðprufur. Að sögn föðurins þurfti sonurinn að dvelja á Landspítalanum í nótt en vinirnir fengu að fara heim að lokinni skoðun í gær. Pilturinn var svo útskrifaður í dag og er hann kominn heim.

Faðirinn segir að piltarnir hafi ekki sýnt nein eitrunareinkenni. „Þetta sást bara í blóðinu. Ef við hefðum ekki farið þarna upp eftir þá hefðum við ekkert vitað af þessu. Hann hefði getað orðið mjög, mjög veikur og fengið heilabjúg.“

Faðirinn segir að umrætt sett hafi verið keypt í Costco og nokkuð sé liðið síðan það var keypt. Hann veit ekki hvort það sé enn til sölu en hvetur foreldra til að vera vakandi ef settið leynist inni á einhverjum heimilum.

Sonur mannsins var sem fyrr segir á Landspítalanum í nótt þar sem hann fylgst var með honum með endurteknum blóðprufum. „Hann átti að fá vökva í æð en það gekk svo illa að koma vökva í hann, hann var svo skelkaður greyið. Þeir enduðu á að svæfa hann í nótt til að koma legg í hann,“ segir faðirinn sem segir þetta hafa verið óskemmtilega reynslu.

„Þetta var ekki skemmtilegt en sem betur fer fór þetta vel. Þetta horfir allt til betri vegar, það var mjög vel hugsað um okkur þarna niður frá,“ segir hann.