Ásthildur Lóa sár og svekkt: „Þetta er þyngra en tárum taki“

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, segir að forgangsröðun ríkisstjórnarinnar sé skýr: Að gera þá ríku ríkari og þá fátæku fátækari.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í grein eftir Ásthildi sem birtist í Morgunblaðinu í dag. Hún segir að okkar minnstu bræður og systur séu kirfilega kúguð til fátækar, þau standi hvorki undir tugþúsunda mánaðarhækkun á leigu né stighækkandi nauðsynjum.

„Öryrkjar og eldra fólk berst í bökkum við að halda heimilum sínum en fá litla sem enga aðstoð stjórnvalda. Þetta eru fórnarlömb verðtryggingar og blússandi verðbólgu, þetta eru þeir sem munu missa heimili sín ef ríkisstjórnin grípur ekki til róttækra varnaraðgerða strax,“ segir hún.

Ásthildur segir að í stað þess að mæta þeim raunveruleika sem blasir við strái Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um sig úreltum tölum um að leiguverð hafi hækkað meira en launavísitalan. Hann gleymi aftur á móti nokkrum lykilatriðum, eins og til dæmis því að greiðslur almannatrygginga séu enn og aftur látnar dragast aftur úr.

„Hækka ekki í samræmi við gildandi lög. Kjaragliðnunin heldur áfram að aukast þrátt fyrir falsfréttir ríkisstjórnarinnar um annað,“ segir hún.

Ásthildur segir með ólíkindum hvernig reynt sé að gera lítið úr þeim gríðarlegu hækkunum sem hafa átt sér stað að undanförnu.

„Hreinlega til skammar hvernig reynt er að telja fólki sem berst í bökkum trú um að það hafi það raunverulega fínt. En ríkisstjórnin deyr ekki ráðalaus og segir leigu ekki hafa hækkað meira en í öðrum löndum Evrópu. Það má vel vera rétt, en þá gleymist alveg að taka tillit til gólfsins, þ.e.a.s. að leiga í Evrópu hefur alltaf verið miklu lægri enn á Íslandi og því ólíku saman að jafna,“ segir hún og nefnir að 20% hækkun á 100.000 króna leigu sé 120.000 en sama hækkun á 300.000 króna leigu sé 360.000.

„Já, vistin í fílabeinsturninum er notaleg og auðvelt að velja sér hvaða glugga maður horfir út um og ef útsýnið er ekkert sérstaklega spennandi velur maður sér einfaldlega annan glugga. Flokkur fólksins hefur lagt fram hvert frumvarpið á fætur öðru til varnar þeim sem bágast standa við engar undirtektir ríkisstjórnarinnar.“

Ásthildur nefnir sem dæmi frumvarp um 350.000 krónur til ráðstöfunar á mánuði og spyr hvernig nokkur ríkisstjórn geti hafnað því?

„En svarið er skýrt NEI. Flokkur fólksins lagði fram frumvarp um að verðtrygging á lánum og leigu yrði fryst í eitt ár. Til að forðast atkvæðagreiðslu var því vísað til ríkisstjórnarinnar, sem þýðir í raun NEI, þótt við getum leyft henni að njóta vafans í nokkra daga í viðbót. Flokkur fólksins hefur endurtekið lagt fram frumvarp um að taka húsnæðisliðinn úr vísitölunni, sem myndi lækka verðbólguna um 3% á einu bretti, sem heimilin myndi svo sannarlega muna um. Svarið er NEI. Þetta er þyngra en tárum taki en Flokkur fólksins mun aldrei gefast upp í baráttunni fyrir heimilin og þau sem minnst mega sín. Þið getið treyst því!“