Ást­hildur er reið og vill fá 12 milljónirnar sínar til baka

18. nóvember 2020
13:09
Fréttir & pistlar

„Það kæmi sér gríðar­lega vel fyrir okkur hjónin að fá þessar 12 milljónir til baka,“ segir Ást­hildur Lóa Þórs­dóttir í pistli á vef Vísis. Ást­hildur er for­maður Hags­muna­sam­taka heimilanna en hún segist hafa verið fé­flett illi­lega af Arion banka.

Til­efni pistilsins er frétt Markaðarins í dag þess efnis að Arion banki sé hrein­lega í vand­ræðum með eigið fé sitt vegna þess hversu mikið það er. Í fréttinni kemur fram að bankinn sé með um 65 milljarða króna í um­fram eigið fé og ætti að geta greitt hlut­höfum rúm­lega 40 milljarða í arð.

Ást­hildur stingur upp á því að hann geri upp við hana og fleiri til fyrst.

Óbilgirni og harka

„Ég ætla að stinga upp á því við bankann að hann greiði hlut­höfum sínum ekki neitt af þessum 65 milljörðum enda „ekki skyn­sam­leg ráð­stöfun“, heldur sýni banka­stjóri Arion banka þann mann­dóm og sann­girni að sjá til þess að þeir 40 milljarðar sem hann getur greitt út, fari til fólksins sem bankinn hefur fé­flett, af ein­stakri ó­bil­girni og hörku, síðustu árin,“ segir Ást­hildur í pistli sínum og bætir við að þeir skipti þúsundum.

„Arion banki stal af mér a.m.k. 12 – 30 milljónum, ef ekki meiru, og ég myndi gjarnan vilja fá eitt­hvað af því til baka. Upp­hæðin fer eftir því við hvað er miðað, en hún er klár­lega nær 30 milljónum en 12. Ég er þó til í að miða kröfu mína við þær al­gjör­lega ó­um­deilan­legu 12 milljónir sem um ræðir, til að flækja málin ekki frekar.“

Hún segir að vand­ræði bankans með að losna við eigið fé komi henni á ó­vart. Segir hún að ó­bil­girni bankans á þeim tíma þegar hún var að eiga við hann benti til þess að hann héngi á hor­riminni. Hún fer ekki efnis­lega í saumana á deilum sínum við bankann en segir að hann hafi neytt afls­munar með ó­for­skömmuðum hætti. Ásthildur hefur áður tjáð sig um að hafa tekið ólögmætt gengistryggt lán á sínum tíma eins og þúsundir Íslendinga.

Tókst að bjarga heimili sínu

Ást­hildur segir að ein­hverjir kunni að velta fyrir sér hvers vegna hún fór ekki með málið fyrir dóm­stóla.

„Það er eðli­leg spurning en henni er að sumu leyti erfitt að svara því þar að baki liggur flókin saga um skelfi­leg brot ís­lenskra dómara og mis­notkun á því gríðar­lega valdi sem þeim hefur verið falið. Það er ein á­stæðan fyrir því að þetta mál hefur ekki enn­þá verið tekið lengra og að þegar að svarf til stáls fyrir ári síðan, vorum við hjónin komin í þá stöðu að þurfa að bjarga því sem bjargað varð. Okkur tókst að bjarga heimili okkar, en það var ó­heyri­lega dýru og ó­rétt­látu verði keypt.“

Hún nefnir fleiri á­stæður, til dæmis þá að það getur verið dýrt að leita réttar síns og þá virðist Ást­hildur ekki hafa mikla trú á ís­lensku dóms­kerfi.

„Ef ís­lensku dómurum er líkt við knatt­spyrnu­dómara þá eru þeir tólfti maðurinn í bankaliðinu og svo grófir að þeir dæma hrein­lega víti fyrir í­mynduð brot úti á miðjum velli. Staðan fyrir mót­herja bankanna er því svo til von­laus frá upp­hafi leiks.“

Ást­hildur skorar á Bene­dikt Gísla­son, banka­stjóra Arion banka, að greiða til baka það sem bankinn hefur of­tekið að hennar sögn.

„Ég fer fram á að fá þær 12 milljónir til baka sem ég sannan­lega á og hvet aðra sem bankinn hefur of­tekið peninga af, að fara fram á það sama.“