Ásta keypti veitingar fyrir 9 þúsund krónur og átti svo að borga sérstaklega fyrir kranavatnið

Fjörugar umræður áttu sér stað í Facebook-hópnum Bakland ferðaþjónustunnar um helgina eftir að kona ein birti þar reynslusögu sína af kaffihúsi úti á landi.

„Ég var stödd á kaffihúsi/verslun úti á landi þar sem ég eyddi um 9 þúsund krónum í mat, drykk og vörur. Eftir að hafa borðað mat sem var góður en í mjög smáum skömmtum var ég þyrst og bað um vatnsglas. Kranavatnið kostar þá 100 krónur,“ segir konan, Ásta. Hún var ekki tilbúin að borga 100 krónur fyrir vatnsglasið, afþakkaði því og settist niður.

„Eftir smá umhugsun ákvað ég að skila hluta vörunnar sem ég hafði keypt og var þá krafin um nótu. Því var þó ekki haldið til streitu og ég fékk endurgreitt. Ég lýsti yfir vonbrigðum mínum með vatnið og sagði eigandinn minn mér að hann þyrfti að gera þetta því annars kæmi fólk og settist og drykki bara vatn, reksturinn væri erfiður og fleira í þeim dúr. Svo var því bætt við að fólk væri látið kaupa drykki á öllum öðrum kaffihúsum,“ segir Ásta og bætir við að það sé reyndar ekki hennar reynsla.

Hún segist ekki vilja nefna staðinn til að skaða hann ekki, en sjálf getur hún ekki hugsað sér að versla við við stað sem neitar fólki um venjulegt vatn. Spyr konan hvort margir staðir geri þetta og hvort þetta séu góðir og gildir viðskiptahættir. Hún tekur þó fram að hún hafi fulla samúð með tilvistarbaráttu vissra staða en eigi erfitt með að sætta sig við að fara svöng eða þyrst út af veitingastað.

Fjölmargar athugasemdir hafa verið skrifaðar við færsluna og sitt sýnist hverjum. Einn bendir á að í okkar þjóðfélagi – ásamt öðrum – gildi ákveðnar siðferðis- og samfélagsreglur. „Ein þeirra er sú að maður neitar ekki fólki um vatn. Og maður rukkar ekki fyrir það.“ Annar bætir við að lágmark sé að þeir sem eru búnir að versla fái frítt kranavatn.

Aðrir rengja frásögn konunnar og segjast hafa farið víða en aldrei kynnst því að vera rukkaðir um kranavatn. Er konan meðal annars krafin um kvittun. „Fæ ekki kvittun fyrir því sem ekki er greitt en ég get gefið þér nafn á staðnum og þú getur sannreynt það sjálf,“ segir hún.