Ásta Guðrún sver af sér sóttvarnarbrotin

Ásta Guðrún Helgadóttir, fyrrverandi alþingismaður Pírata, segir að hún tengist ekki meintum sóttvarnarbrotum á barnum Forsetanum í gær. Eins og fram hefur komið geta 25 manns búist við kæru fyrir brot á sóttvarnalögum þegar lögregla leysti upp samkvæmi á barnum í gær. Þá verða eigendur staðarins kærðir fyrir brot á áfengislögum fyrir að selja áfengi út af staðnum yfir í salinn við hliðina á.

Ásta Guðrún var einn eigenda staðarins þegar hann opnaði í júlí í fyrra. Var hún þá í viðtali við DV og sagði þetta lengi hafa blundað í sér.

„Þetta er svona lítið fjölskyldufyrirtæki, ég og pabbi erum í þessu saman,“ sagði hún við DV í júlí.

Ásta segir á Facebook í dag að hún komi ekki nálægt rekstrinum í dag.

„Af gefnu tilefni og án þess að vilja fara í einhverjar nánari útskýringar, þá er kannski gott að það komi fram að ég hef ekki komið nálægt rekstri Forsetans síðan í haust og er ekki eigandi staðarins.“