Ásmundur: „Hjá sjóræningjunum gilda sömu lögmál og í fjósinu“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir merki haturssamtakanna Ku Klux Klan, hauskúpur, einelti og yfirgang eiga meira skylt við Pírata en lögreglumenn.

Mikil reiði hefur sprottið á samfélagsmiðlum vegna fána sem lögreglukona sást bera á ljósmynd Morgunblaðsins sem er nokkurra ára gömul. Eru merkin sögð tengjast kynþáttahatri og öfgaskoðunum en til að mynda hefur einn fáninn verið notaður af nýnasistum og hvítir öfgahópum.

Lögreglumönnum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu verður gert að fjarlægja öll merki af öryggisvestum sínum. Fjölmargir hafa tjáð sig um málið, þar á meðal Píratar.

Þór­hildur Sunna Ævars­dóttir, þing­maður Pírata sagði að fyrir sér jafn­gildi það að gera lítið úr al­var­leika málsins því að neita að viður­kenna al­var­leika málsins.

„Mér finnst bara mjög leitt að sjá lög­regluna vera komna í þetta mikla vörn eins og mér fannst við­brögð þeirra að­dáunar­verð í gær,“ sagði Þór­hildur.

Ásmundur kann greinilega ekki að meta viðbrögð Þórhildar og skrifar:

„Hjá sjóræningjunum gilda sömu lögmál og í fjósinu, þegar ein beljan mígur verður öllum hinum mál. Þetta á við þegar píratar hella ósómanum yfir reynda og góða lögreglukonu verður fréttastofum píratanna mál og á þeim bæjum fyllast haughúsin fljótt,“ skrifar Ásmundur í færslu á Facebook.

Hann segir stórmerkilegt að Viðreisn og Samfylkingin ætli sér að mynda kosningabandalag með „svona fólki.“ Hér fyrir neðan má sjá færslu Ásmundar í heild sinni.

Fleiri fréttir