Ásmundur friðriksson ók fyrir 25 milljónir á 6 árum – rukkaði fyrir að skutla tökufólki ínn

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur þegið um 25 milljónir frá Alþingi í endurgreiddan aksturskostnað síðan 2013, en þá settist hann fyrst á þing.

Hringbraut hefur síðustu daga fjallað um ferðir þingmanna, þá bæði flugferðir innanlands sem og aksturskostnað. Hringbraut hefur greint frá því að Lilja Rafney Magnúsdóttir þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi, flaug langmest allra þingmanna innanlands 2018 en samtals var ferðakostnaður hennar innanlands 3,5 milljónir á síðasta ári. Þegar húsnæðis- og dvalarkostnaður ásamt öðrum aukagreiðslum eru teknar með í reikninginn er upphæðin um 6,4 milljónir. Hringbraut er sömuleiðis búið að skoða upphæðir Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis. Steingrímur var með rúmar 1,8 milljón krónur í laun á mánuði á síðasta ári eða samtals 22 milljónir. Þá fær hann tæpa hálfa milljón í fastan starfskostnað. Sem forseti Alþingis hefur hann aðgang að bíl og bílstjóra á vegum þingsins. Ofan á það fékk hann svo húsnæðisstyrk upp á 1,6 milljónir króna, eða um 130 þúsund á mánuði, einungis vegna þess að vera skráður með lögheimili úti á landi og vera kjörinn sem landsbyggðarþingmaður. Þessar tölur eru að finna á vef Alþingis. Næstur í röðinni er Ásmundur Friðriksson.

Akstur Ásmundar

Ásmundur ók fyrir tæpar 3,2 milljónir árið 2013.

Mest keyrði hann árið 2014 og þá fékk hann um 5,4 milljónir frá Alþingi vegna nota á eigin bifreið.

Árið 2015 fékk hann örlítið minna eða um fimm milljónir.

Árið 2016 fékk hann tæpar 4,9 milljónir.

Árið 2017 hlaut hann 4,2 milljónir fyrir aksturinn og alls 4,6 milljónir vegna ferðalaga innanlands.

Árið 2018 notaði Ásmundur bílaleigubíl og fékk 1.166.050. Þá fékk hann 684.090 fyrir að nota eigin bíl og 633.073 krónur fóru í eldsneyti sem hann fær einnig endurgreitt.

Á árinu 2018 fékk Ásmundur einnig 536.160 í húsnæðis og dvalarkostnað en Ásmundur er búsettur í Njarðvík. Þá fékk Ásmundur 360 þúsund í fastan ferðakostnað í kjördæminu líkt og aðrir landsbyggðarþingmenn.

Alls er kostnaður við ferðalög Ásmundar innanlands tæplega 2,5 milljónir króna fyrir árið 2018.

Ásmundur og akstur hans hefur verið í fréttum í dag eftir að siðanefnd Alþingis mat það svo að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefði brotið gegn reglum þingsins eftir að hafa tjáð sig um akstur Ásmundar í Silfrinu. Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði um svipað leyti að um fjársvik væri að ræða hjá Ásmundi og óskaði eftir að Forsætisnefnd rannsakaði allan aksturskostnað þingmanna og Ásmundar Friðrikssonar sérstaklega. Þórhildur Sunna sagði í Silfrinu:

„Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“

Ekki þótti tilefni til að ávíta Björn Leví af Siðanefnd Alþingis en nefndin mat það svo að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir hefði brotið í bága við ákvæði siðareglna þingsins.

Rukkaði fyrir að skutla starfsfólki ÍNN

DV greindi svo frá því að Ásmundur hefði endurgreitt Alþingi 178 þúsund krónur vegna aksturs síns frá árinu 2017 með tökufólki frá sjónvarpsstöðinni ÍNN. Þótti honum það orka tvímælis að blanda saman ferðum sínum um kjördæmið með tökufólkinu, en í lok Kastljósþáttar í byrjun árs heyrðist Ásmundur viðurkenna að hann hefði rukkað Alþingi fyrir þann akstur, þó svo ljóst væri að sú ferð væri ekki hluti af starfi hans sem þingmaður.