Ásmundur fær á baukinn: „Ási í alvörunni?“

Ás­mundur Frið­riks­son, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, hefur verið gagn­rýndur tölu­vert vegna Face­book-færslu sem hann skrifaði í gær­kvöldi. Ás­mundur talaði þar um mál­efni hælis­leit­enda hér á landi.

„Í Flug­stöðinni bíða nú 17 hælis­leit­endur sem voru að koma til landsins í dag eftir flutningi til Reykja­víkur. Fiski­sagan um að á Ís­landi sé fólki veitt hæli fær byr undir báða vængi. Allt þetta fólk þarf að komast í ein­angrun til Reykja­víkur. Það þarf að gera í mörgum ferðum á bílum því fólkið má ekki vera saman nema hjón eða fjöl­skyldur. Þá taka 17 manns í ein­angrun eða sótt­kví tölu­vert hús­rými og þyngja yfir­lestað heil­brigðis­kerfi,“ sagði Ásmundur sem endaði færsluna á þessari spurningu: „Eigum við ekki nóg með okkur sjálf núna.“

Þó að margir hafi tekið undir með Ás­mundi voru gagn­rýnis­raddirnar einnig há­værar. Páll Valur Björns­son, fyrr­verandi þing­maður Bjartrar fram­tíðar, var hálf orð­laus og sagði í at­huga­semd sinni: „Ási í al­vörunni?“

Einn benti á að það gæti nú varla staðist hjá Ás­mundi að innan við sólar­hring eftir að egypska Ked­hr-fjöl­skyldan fékk land­vistar­leyfi af mann­úðar­á­stæðum væri komin hol­skefla af flótta­mönnum til landsins.

María Lilja Þrastar­dóttir fjöl­miðla­kona læur Ás­mund heyra það í at­huga­semd sinni. „Tjah, ætli sam­fé­lagið eigi það nú ekki inni hjá þér að þú skut­list með blessað fólkið sem er ef­laust þreytt eftir volkið. Annars vona ég bara að þitt erindi á Leifs­stöð hafi verið að fara héðan og sem lengst af landi brott með manneskju­h­atrið í far­teskinu enda er tími ykkar vel­megunar­bólgnu í­halds­seggjanna löngu liðinn,“ sagði hún.

Óskar Steinn Jónínu­son Ómars­son, vara­for­maður Ungra jafnaðar­manna og fyrr­verandi ritari Sam­fylkingarinnar, spyr Ás­mund um það hvort hann hafi ein­hverja hug­mynd úr hvaða að­stæðum þetta fólk er að koma.

„Færðu ekkert ó­bragð í munninn við að skrifa svona færslu þar sem þú smættar fólk af holdi og blóði niður í opin­ber út­gjöld, eða ertu bara svona illa inn­rættur? Að veita þessu fólki vernd hér á landi kostar okkur miklu minna en bensín­reikningurinn þinn í kosninga­bar­áttu.“

Í Flugstöðinni bíða nú 17 hælisleitendur sem voru að koma til landsins í dag eftir flutningi til Reykjavíkur....

Posted by Ásmundur Friðriksson on Föstudagur, 25. september 2020