Ásmundur bregst við gagnrýni „góða fólksins“: „Hitler er þeirra fyrirmynd í öllum málflutningi“

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur svarað fyrir pistilinn sem hann ritaði um komu hælisleitenda síðastliðinn föstudag og birti á Facebook síðu sinni en þar sagði Ásmundur að 17 hælisleitendur væru að bíða í Flugstöðinni sem væru að bíða eftir flutningi til Reykjavíkur. Þá spurði hann hvort Íslendingar ættu ekki nóg með sjálfa sig í augnablikinu.

Alls hafa 350 manns skrifað ummæli við færslu Ásmundar en þrátt fyrir að margir hafa lýst yfir stuðningi við Ásmund heyrðust einnig háværar gagnrýnisraddir, meðal annars frá núverandi og fyrrverandi þingmönnum. Þá skrifaði Grímur Atlason, framkvæmdastjóri Geðhjálpar, við færsluna þar sem hann sagði í kaldhæðni að „okkar bestu þingmenn ekki einu sinni stafsett sóttkví.“

„Nú sést greinilega hvernig góða fólkið bregst við því að ég segi frá því að til landsins komu 17 hælisleitendur á laugardaginn,“ skrifaði Ásmundur í svari sínu við færsluna fyrr í dag. Hann segir; „Hitler er þeirra fyrirmynd í öllum málflutningi sem gengur út á það að segja ósannindinn nógu oft svo fólk fari að trúa þeim, gagnríni i þeirra hefur engin landamæri frekar en ómerkilegheitin.“

Sjá einnig: Ásmundur fær á baukinn: „Ási í alvörunni?“

Hann bætir við að enn annar hópur hafi kallað hann aumingja, hyski aða auðnleysingja en slík ummæli hafi komið frá fólki sem hafi „ekkert annað fram að færa í umræðunni en að fara í manninn ekki boltann.“ Þá spyr hann hvort að það sé nokkuð skrítið að fólk hristi höfuðið yfir umræðunni og bætir við að margir hafi hringt í hann eða sent honum skilaboð vegna þessa.

Meðal þeirra sem svara Ásmundi er Grímur Atlason sem Ásmundur sagði hafa sett umræðuna á lágt stig. „Þú ert ansi selektívur í skilgreiningu þinn á því hvað er að fara í manninn og hvað ekki. Þú gefur upp með ótrúlegri færslu sem ýtir undir fordóma og sundrungu. Það er ekki í fyrsta skipti og væntanlega ekki í það síðasta. Þegar hirðin tekur undir með þér og tekur að hjóla í mann og annan með fleipur og lygar þá gerir þú ekkert þó þú vitir betur.“

Þá svaraði Óskar Steinn Jónínuson Ómarsson, varaformaður Ungra jafnaðarmanna og fyrrverandi ritari Samfylkingarinnar, en hann hafði áður spurt Ásmund hvort hann fengi ekkert óbragð í munninn við að skrifa færsluna og hvort Ásmundur væri illa innrættur. Þá minntist hann á bensínkostnað Ásmundar sem Ásmundur gagnrýndi í svari sínu.

„Staðreyndin er sú, Ásmundur, að við eigum feykinóg af gæðum til skiptanna. Þið í Sjálfstæðisflokknum kjósið bara alltaf að leyfa hinum ríku að taka æ stærri hluta þeirra til sín og fórna öðrum í fátækt, eins og þeim hundruðum sem bíða nú í matarröðum á Suðurnesjum.“

Færsluna og ummælin í heild sinni má sjá hér fyrir neðan:

Í Flugstöðinni bíða nú 17 hælisleitendur sem voru að koma til landsins í dag eftir flutningi til Reykjavíkur....

Posted by Ásmundur Friðriksson on Friday, September 25, 2020