Ás­laug svarar fyrir sig og sendir Svan­dísi pillu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, svarar fyrir sig og sendir Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra pillu vegna ummæla hennar um efasemdir Sjálfstæðismanna um sóttvarnaraðgerðir.

Hringbraut greindi frá því fyrr í dag að Svandís hefði hafnað ummælum Áslaugar um að stjórnvöld hér á landi hefðu gengið lengra en annars staðar í Evrópu.

„Í raun og veru höf­um við séð þess­ar ef­a­semd­ir og þess­ar vang­a­velt­ur Sjálf­stæð­is­mann­a í raun alveg frá byrj­un far­ald­urs­ins um ein­staka sótt­varn­a­að­gerð­ir. Við höf­um nú bor­ið gæfu til þess að sam­mæl­ast um nið­ur­stöð­urn­ar hverj­u sinn­i og þær hafa ver­ið í sam­ræm­i við leið­sögn sótt­varn­a­lækn­is,“ sagði Svandís.

Segist hafa verið talsmaður meðalhófs

Áslaug segir í Facebook færslu að hún hafi sem dómsmálaráðherra komið að öllum ákvörðunum um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur staðið að frá því að faraldurinn hófst hér á landi í ársbyrjun 2020.

„Þar hef ég verið talsmaður meðalhófs og gætt að því að ekki sé gengið lengra en þörf er hvað varðar nauðsynlegar skerðingar á frelsi einstaklinga og starfsemi fyrirtækja þegar farsóttir geisa. Ég hef varið þær aðgerðir gagnvart þeim sem hafa gagnrýnt þær á þeim grundvelli að verið væri að ganga of langt.“

Áslaug segir eðlilega hafa farið fram umræður í ríkisstjórn í aðdraganda ákvarðana, það sé í anda lýðræðislegra stjórnarhátta. Ríkisstjórnin hafi staðið saman um þær ákvarðanir sem teknra hafi verið, einnig um síðustu ákvörðun þar sem Áslaug seigst ekki hafa séð ástæðu til að gera ágreining um niðurstöðuna.

„Ég benti hins vegar á mikilvægi þess að endurmeta stöðuna í ljósi fjölda þeirra sem hér er bólusettur og mikilvægi þess að standa við það, sem almenningi hefur áður verið sagt og lofað; að breyta ekki um stefnu nema að vel athuguðu máli.

Almenningur gerir sín plön og sínar áætlanir byggt á því sem stjórnvöld kynna hvað varðar sóttvarnaraðgerðir. Þær ákvarðanir verða ávallt að styðjast við traustar röksemdir sem mega ekki breytast eftir einhverjum geðþótta.“

Áslaug segir öfugmæli að líkja því við að ráðherra skipi sér í stjórnarandstöðu þegar reifuð eru ólík sjónarmið á fundum ríkisstjórnarinnar.

„Þvert á móti sýnir reynslan að skoðanaskipti meðal ráðherra hafa leitt til farsællar niðurstöðu. Markmiðum má ekki breyta í sífellu og oft er gott að rifja upp hverju við ætluðum að ná í upphafi farsóttarinnar.“