Áslaug svarar Eiríki fullum hálsi: „Hljóð heyrðist úr horni kerfisins“

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus í íslenskri málfræði við Háskóla Íslands, gagnrýndi á dögunum auglýsingu Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins, þar sem íslenskukunnátta var ekki skilyrði fyrir starfinu.

Nú hefur Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra ráðuneytisins svarað Eiríki fullum hálsi í færslu sem birtist á Facebook.

„Mikil umræða hefur skapast um eitt af þremur störfum sem ráðuneyti mitt auglýsti á dögunum.“ skrifar Áslaug og bætir við:

„Eiríkur Rögnvaldsson segir útskýringu mína vera „dæmigert pólitíkusasvar” þegar ég útskýrði eðli starfsins og af hverju ég taldi í lagi að gera ekki kröfu um íslensku. En frá honum og fleirum kemur aftur á móti dæmigert kerfissvar, það virðist ekki vera neinn áhugi á því að ræða það hvernig við ættum að stjórna eða hafa lög og reglur, heldur bara við höfum aldrei gert þetta svona og skulum ekki byrja á því núna. Ég er í stjórnmálum til að breyta til batnaðar, rjúfa kyrrstöðu og þróa stjórnkerfið í takti við þjóðfélagsbreytingar. Þegar maður stígur það sem í mínum huga er eðlilegt skref í takt við tímann er við því að búast að hljóð heyrðist úr horni kerfisins.“

Áslaug segir að það sé óþarfi að útiloka fólk frá starfinu sem tala ekki fullkomna íslensku frá umræddu starfi. Þá segir hún eðlilegt að einhver af þeim 50 þúsund erlendu ríkisborgurum sem eru búsettir hér á landi

„Ég tel óþarfi að útiloka þá sem ekki tala fullkomna íslensku frá störfum sem þessum þar sem unnið er með tölur en ekki tungumálið. Hér á landi eru yfir 50.000 erlendir ríkisborgarar og það hlýtur að vera óhætt og eðlilegt skref að þau hafi einhvern aðgang að störfum hjá hinu opinbera þar sem hægt er að koma því við. Vissulega mun ég kanna það betur hvort auglýsingin standist ekki lög, en ef svo er ekki þá myndi ég telja að krafan um íslensku sé tekin lengra en nauðsynlegt er með hliðsjón af meðalhófi og jafnræði.“

Að lokum segir Áslaug að fjölbreytileiki samfélagsins og aðgengi að störfum hljóti að eiga jafnt við um hið opinbera eins og atvinnulífið.

„Fjölbreytileiki samfélagsins og aðgengi að störfum hlýtur að eiga jafnt við um hið opinbera eins og atvinnulífið. Samkeppnishæfni okkar sem þjóðar skiptir öllu máli og að við virkjum allan mannauð samfélagsins og hreyfumst í takt við tímann. Þær áskoranir eiga alveg samleið með að varðveita fallega tungumálið okkar, íslenskuna.“