Áslaug hringdi í lögreglustjóra eftir uppákomuna í Ásmundarsal: Segist ekki hafa spurt út í Bjarna

Daginn eftir uppákomuna í Ásmundarsal þann 23. desember 2020 hringdi Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra tvisvar sinnum í Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, en greint var frá málinu í kvöldfréttum RÚV.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og flokksbróðir Áslaugar, var í Ásmundarsal þegar lögregla var kölluð til vegna samkomutakmarkana en hátt í 50 manns voru þar inni á meðan samkomutakmarkanir miðuðust við 10 manns.

Upp komst um ráðherrann í dagbókarfærslu lögreglu sem send var á alla fjölmiðla að morgni aðfangadags en þar kom fram að „einn háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hafi verið á staðnum og leið ekki að löngu þar til ljóst var að um fjármálaráðherra væri að ræða.

Að sögn Áslaugar hringdi hún aðeins í lögreglustjóra til að ræða upplýsingagjöf lögreglu í ljósi atviksins en flestir voru sammála um að tilkynning lögreglu væri óvanaleg. Hún ítrekar að símtalið hafi ekki snúið að rannsókn málsins heldur aðeins þeim hluta og tekur Halla undir það.

„Ég er æðsti yfirmaður lögreglunnar í landinu og því kemur það oft í minn hlut að svara spurningum sem varða störf hennar. Mér þykir mikilvægt að vera vel upplýst og í góðu sambandi við lögreglustjóra til að geta svarað fyrirspurnum frá almenningi og fjölmiðlum,“ sagði Áslaug.