Áslaug Arna um milljón-á-mánuði regluna: „Þetta er fyrsta skrefið“

30. október 2020
10:27
Fréttir & pistlar

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, segir að milljón króna tekjuviðmið við fjarvinnu útlendinga hér á landi sé fyrsta skrefið. Líkt og greint var frá í gær nær ný reglugerð um fjarvinnu útlendinga, utan EES-svæðisins, hér á landi aðeins til þeirra sem eru með erlendar tekjur sem sam­svara að minnsta kosti einni milljón króna á mán­uði. Ef maki við­kom­andi kemur með til landsins þá þarf hann að minnsta kosti að vera með 1,3 millj­ónir króna á mán­uði.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður utan flokka, þrýsti á skýringar frá dómsmálaráðherra á Twitter í gær. „Af hverju eru svona rosalega há tekjumörk? Varla finnst ykkur fólk þurfa milljón á mánuði til að lifa af,“ spurði Andrés Ingi.

Áslaug Arna svaraði:

„Þetta er fyrsta skrefið. Talin var þörf á tekjuviðmiði þar sem þessir aðilar greiða ekki skatt á Íslandi og þiggja því ekki samfélagsþjónustu. Það var ákveðið að miða við $85k í árslaun, sem eru algeng laun þegar kemur að launum sérfræðinga í stórborgum.“

Andrés Ingi spurði í kjölfarið fleiri spurninga, en við þeim hafa ekki borist svör. „En af hverju svona há? Skv. 6. gr. reglugerðarinnar eru sett þau skilyrði að fólk með langtímadvalarleyfi sé með trygga framfærslu og sé sjúkra- og slysatryggt þann tíma sem það dvelur hér á landi. Hvaða rosalegu kostnaðarliðir kalla á milljón í laun þegar fólk er í fjarvinnu?,“ spyr Andrés Ingi. Hann bætti svo við: „Þessi upphæð hlýtur að eiga að endurspegla það sem þarf til framfærslu á Íslandi, ekki grunnlaun í einhverjum bransa í einhverri erlendri stórborg.“