Áslaug Arna tekur af öll tvímæli: 50 milljarðar í innviði Borgarlínunnar

Fjölmiðlamaðurinn Gísli Marteinn Baldursson las stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins, segir hann á Twitter að þar væri margt gott að finna en einnig margt sem hann skildi ekki. Þar á meðal væri ekkert minnst á Borgarlínuna, af því tilefni bað hann um svör frá forystu flokksins, Bjarna Benediktssyni , Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur og Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, um hvort þau styðji ekki Borgarlínuna í þeirri mynd sem nú sé unnið eftir.

Gísla var meðal annars bent á að greinarhöfundar í Morgunblaðinu hafi einmitt fagnað því að flokkurinn nefndi ekki Borgarlínuna.

Hildur Sverrisdóttir, þingframbjóðandi flokksins, svaraði Gísla og sagði að borgarlína væri auðvitað partur af samgöngusáttmálanum sem þar er fagnað.

Gísli spurði þá Hildi:

„Fyrst ég er með þig í símanum: Getur þú staðfest að D styðji þessa útgáfu Borgarlínunnar sem núna er í hönnun og hefur verið unnið að lengi?“

Hildur sagði að hún vissi ekki betur en að einungis 1. lota af 6. sé komin í frumhönnun en það yrði skoðað.

Gísli svaraði:

„En værirðu nokkuð til í að svara spurningunni mín kæra? Og ef þú veist ekki hvort þið styðjið Borgarlínuna þá er ekkert að því að segja það. Og svo væri reyndar líka hjálplegt ef forystan sem er hér á þræðinum líka myndi svara. Þetta er risastórt mál og afstaðan skiptir máli,“

segir Gísli á Twitter. „Ég er bara að spyrja hvort þið styðjið Borgarlínu í þeirri mynd sem hún er núna fyrirhuguð. Ég er ekki að tala um neina díteila í hönnun, bara þá grunn hugmyndafræði sem núna er unnið eftir. (Sem er td ekki þessi útgáfa sem gömlu kallarnir sem eru að skrifa í Moggann vilja).“

Áslaug Arna kom svo og tók af öll tvímæli:

„Ég er ekki í forystu en spurð og er ráðherra. Það er skýrt í Samgöngusáttmálanum að það eigi að setja 50 milljarða í innviði Borgarlínunnar sem felur í sér það hágæða hraðvagnakerfi sem er verið að undirbúa og við styðjum.“

Gísli var ánægður: „Kærar þakkir Áslaug! Mjög skýrt.“