Áslaug Arna í óbyggðum: Sáu ferðamenn sem veifuðu – Í ljós kom að þá vantaði sárlega aðstoð

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, er mikil útivistarkona og lenti hún í miklu ævintýri í sumar þegar hún fór í hestaferð um hálendið.

Áslaug Arna segir frá þessu á Facebook-síðu sinni en í ferðinni dvaldi hún, ásamt hópi fólks, í skálum án rafmagns og sambands í allskonar veðri.

„Hálendið okkar og náttúra er ævintýri líkast og það er alltaf einstakt að fá að kynnast því frekar. Það er þó ekki síður einstaka fólkið okkar,“ segir Áslaug Arna.

Hún segir að einn daginn hafi leiðin legið inn í Jökulgil við Landmannalaugar sem Áslaug segir að sé ein fallegasta leið sem hún hefur farið.

„Þegar við vorum komin talsvert innarlega veifuðu okkur tveir einstaklingar ofarlega í fjallshlíð, eftir stutta stund áttuðum við okkur á því að þeir voru ekki að heilsa okkur heldur biðja um aðstoð,“ segir Áslaug.

Áslaug segir að Hermann Árnason, sem var leiðsögumaður ferðarinnar og fararstjóri, hafi þá riðið upp fjallshlíðina og hitt þar fyrir tvo ítalska ferðamenn sem voru á hjóli.

„Þau voru orðin köld og á leið í kolranga átt. Til að komast til baka í Landmannalaugar þurftu þau að fara fjórum sinnum yfir ána og finna síðan slóðann hjólandi yfir fjalllendi. Þau treystu sér ekki í það, en hestaleiðin til baka fer yfir ána í tugum skipta og gekk því ekki heldur,“ segir Áslaug og bætir við að ekkert símasamband hafi verið á svæðinu.

Hún segir að Hermann hafi ekki velt því lengi fyrir sér, né miklað það fyrir sér, að ganga með hjólin þeirra yfir ána og reiða ferðamennina yfir á hestum.

„Þetta var endurtekið fjórum sinnum (eða átta með tvö hjól og tvo auka knapa) og þá voru þau komin réttu megin til að hjóla yfir í Landmannalaugar. Á leið okkar til baka sáum við að þau höfðu ekki hitt á rétta leið og voru stopp ofarlega í brattri fjallshlíð, við riðum því nokkuð hratt til baka og báðum Björgunarsveitina að fara eftir þeim. Þau höfðu stuttu síðar loksins komist í samband við Neyðarlínuna líka.“

Áslaug segir að björgunarleiðangurinn hafi verið langur og það hafi tekið hátt í fjóra tíma að ná þeim niður.

„En það tókst og á meðan reið Hermann til baka alla leið í Landmannahelli með 80 hrossa stóð eftir svaðilförina. Það er því bæði fólkið, Hermann Árnason og þau í björgunarsveitinni, ásamt einstöku náttúrunni sem eiga aðdáun mína eftir ferðalagið. Ferðamennirnir geta þakkað þeim líf sitt og munu eflaust muna að vera betur búin næst á ferðalagi sínu um Ísland,“ segir Áslaug og birtir myndir frá ferðalaginu.