Áslaug arna: „fangelsi er ekki geymslustaður fyrir fólk sem við höfum ekki burði til að sinna“

„Fangar eiga rétt á almennri heilbrigðisþjónustu og þar með talið aðstoð sálfræðinga og sérfræðinga í fíknsjúkdómum. Dómsmálaráðuneytið hyggst hrinda í framkvæmd og fylgja eftir aðgerðaáætlun sem í megindráttum snýst um að efla heilbrigðisþjónustu við fanga og tryggja markvissa og samhæfða framkvæmd þjónustunnar.“

Þetta segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í pistli sínum í Morgunblaðinu í dag.

Hún segir sérstaka áherslu verða lagða á að efla geðheilbrigðisþjónustu og að skilgreina verklag í innri starfssemi fangelsanna vegna breytinga á heilbrigðisþjónustunni.

„Ráðist verður í aðgerðir til að sporna gegn dreifingu og neyslu vímuefna á Litla-Hrauni. Þessum markmiðum fylgir aukið fjármagn. Starfsfólk fangelsanna hefur unnið þrekvirki við þröngan kost, en meira þarf til að koma. Ítrekað hefur verið sýnt fram á að stór hluti þeirra sem lenda á glapstigu hefur orðið fyrir áföllum sem nauðsynlegt er að vinna úr,“ segir Áslaug.

Bendir hún á nýlega rannsókn sem segir að um tæplega 60% fanga í íslenskum fangelsum glími við vímuefnavanda og að um sjötíu prósent eiga sögu um slíkan vanda.

„Hátt hlutfall fanga er með ADHD og annars konar vanþroskatengd vandamál, sem þarfnast meðferðar fagmanna. Fangelsismálastjóri hefur sagt í fjölmiðlum að það sé augljóst öllum þeim sem þekkja til í fangelsunum að flestir, ef ekki allir, sem sitja í fangelsi eigi við einhvers konar fíknivanda að stríða. Það verður að hjálpa því fólki sem glímir við slíkan vanda. Langflestir glæpir eru framdir undir áhrifum fíkniefna. Ef unnt væri að grípa inn í og koma fólki á beinu brautina væri hægt að fækka afbrotum og þar af leiðandi endurkomum í fangelsin. Endurkoma fanga, sem í flestum tilfellum eru ungir karlmenn, er ekki bara vandamál þess sem dæmdur er til refsivistar heldur samfélagsins alls,“ segir Áslaug.

Hún segir að um helmingur þeirra fanga sem afplána í fangelsum landsins í dag hafi áður setið inni.

„Beinn kostnaður við hvern fanga er tæplega tíu milljónir króna á ári. Það er allt fyrir utan þá óhamingju sem fangelsisvistin kallar yfir fangana sjálfa og fjölskyldur þeirra. Frelsissvipting er afar íþyngjandi aðgerð og henni fylgir mikil ábyrgð. Stjórnvöldum ber að standa undir þeirri ábyrgð og gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að tryggja að raunveruleg betrun eigi sér stað í fangelsum landsins,“ segir hún og bætir við að með aðstoð fagmanna fáist betra fólk út úr fangelsunum en gengu þangað inn.

„Fagmennirnir geta vonandi fært fólki verkfæri til að takast á við lífið utan veggja fangelsanna. Það er til mikils að vinna. Fangelsi er ekki geymslustaður fyrir fólk sem við höfum ekki burði til að sinna. Fangar þurfa tækifæri til að komast aftur á beinu brautina; með eitthvað í farteskinu út í lífið. Skapa þarf skilyrði til þess að þeir geti orðið virkir samfélagsþegnar og vonandi hamingjusamari einstaklingar að lokinni afplánun í fangelsum landsins.“