Ás­geir starfaði lengi sem læknir er­lendis: Mjög hugsi yfir stöðunni á Íslandi þegar hann kom heim

30. júlí 2020
20:33
Fréttir & pistlar

„Stað­reyndin er sú að ég varð mjög hugsi yfir stöðunni á Ís­landi þegar ég hóf þar störf,“ segir Ás­geir Guðna­son, bæklunar­skurð­læknir sem starfar sem sér­fræðingur í lið­skipta­að­gerðum og endur­að­gerðum gervi­liða á Land­spítalanum.

Ás­geir stingur niður penna í Morgun­blaðinu í dag þar sem hann bendir á að slit­gigt í mjöðm og hné séu til­tölu­lega al­gengir sjúk­dómar. Sjúk­lingurinn finni fyrir stirð­leika og verk sem verður verri með tímanum. Ganga verði erfið og at­hafnir eins og að fara í sokka geti orðið erfitt. Endan­leg með­ferð við slit­gigt er gervi­liða­að­gerð þegar allt annað hefur verið reynt. Ás­geir þekkir það að þessar að­gerðir geta bætt lífs­gæði sjúk­linga um­tals­vert.

Séríslenskt menningarlegt fyrirbrigði

Ás­geir bendir svo á að hann hafi starfað er­lendis um ára­bil við gervi­liða­skurð­lækningar. Hann segist hafa orðið mjög hugsi yfir stöðunni hér á landi þegar hann kom heim.

„Bið­listarnir voru lengri en ég var vanur. Til­finningin sem ég fékk var annars vegar að þetta „væri bara svona“ – eins og eitt­hvert sér­ís­lenskt menningar­legt fyrir­brigði og að fjallið væri ein­fald­lega orðið of stórt. Svona eins og litla barnið sem hefur sig ekki í að taka til í her­berginu sínu þar sem draslið er ein­fald­lega orðið of mikið. Um­ræðan um þetta var og er líka furðu­lega lítil að mínu mati og deyr fljót­lega út, sér­stak­lega þar sem Land­spítalinn og ís­lenska ríkið, eig­andi hans, tekur varla þátt í henni.“

Ás­geir reynir svo að svara því um hvað málið snýst. „Vanda­málið er í raun á­kaf­lega ein­falt þegar maður hugsar um heildar­myndina. Þetta snýst um venju­legt fólk sem hefur fengið slit­gigt í liðina og getur lítið að því gert. Flestir eru ef­laust ó­sköp venju­legt fólk, er í vinnu eða komið eftir­laun og flestir hafa borgað sína skatta til ríkisins og staðið við sitt gagn­vart ríkinu. En er ríkið að standa við sitt á móti? Er eðli­legt að bið­tíminn sé svona langur af því að fólk var svo ó­heppið að fæðast á Ís­landi? Er þetta bara svona? Af hverju er farið svona með þetta fólk?“

Gátum leyst skimunarvandann

Ás­geir veltir því fyrir sér hvernig best sé að leysa vanda­málið og spyr hvort raun­veru­legur á­hugi sé til staðar Hann segir að lausnin á skimunar­vanda­málinu á Co­vid-19 veirunni hafi vakið at­hygli hans.

„Skimanir voru fram­kvæmdar af Ís­lenskri erfða­greiningu vegna þess að Land­spítalinn, sjálft há­skóla­sjúkra­húsið, gat það ekki á þeim tíma. Hvað gerðist svo þegar þetta fyrir­tæki hætti sínum skimunum? Þá gat Land­spítalinn skyndi­lega leyst vanda­málið. Senni­lega vegna þess að þeir urðu hrein­lega að gera það. Þess vegna spyr ég, eru bið­listarnir á Land­spítalanum eftir gervi­liða­skurð­að­gerðum von­laust verk­efni eða ekki? Ef þetta er von­laust að mati ríkisins – af hverju þá bara ekki að viður­kenna það opin­ber­lega og gefast upp. Ef þetta er ger­legt, snýst þetta þá um á­huga­leysi eða peninga­leysi af hálfu ríkisins? Eða eigum við að taka sömu um­ræðuna ár eftir ár án þess að eitt­hvað gerist?“

Ás­geir segir að ís­lensk stjórn­völd og Land­spítalinn þurfi að stíga fram og sýna sínar hug­myndir. Hann segir furðu­legt að skurð­læknar Land­spítalans séu sjaldnast spurðir um hvaða hug­myndir þeir hafa um vanda­málið og hvernig mögu­lega Land­spítalinn gæti leyst bið­lista­vanda­málin.

„Er hægt að fjölga lið­skipta­að­gerðum á Land­spítalanum með því að gera að­gerðir um helgar? Er hægt að gera tíma­bundið átak í lið­skipta­að­gerðum meðan aðrar val­kvæðar að­gerðir bíða? Væri hægt að láta skurð­lækna Land­spítala fram­kvæma að­gerðirnar á öðrum spítölum? Eða eiga bara allir sjúk­lingarnir að fara í að­gerð er­lendis eða á Klíníkinni þar sem bara sumir sjúk­lingar geta borgað fyrir að­gerð? Eru sjúk­lingar með slit­gigt í mjöðm eða hné eða þeir með lausa gervi­liði ekki nógu fínn sjúk­linga­hópur til að ein­hver nenni að tala um þá og eigum við bara að vona það besta?“