Ás­geir seðla­banka­stjóri: „Mjög mikil­vægt að við Ís­lendingar höfum þetta í huga“

26. mars 2020
13:59
Fréttir & pistlar

„Það er því mjög mikil­vægt að við Ís­lendingar höfum þetta í huga áður en við sökkvum okkur í bar­lóm, nei­kvæðni eða sjálfs­vor­kunn,“ segir Ás­geir Jóns­son seðla­banka­stjóri í pistli á Face­book-síðu sinni.

Þar skrifar Ás­geir um heims­far­aldur kórónu­veirunnar en eins og kunnugt er hefur hún haft mikil á­hrif á efna­hag margra ríkja. Ís­land er þar ekki undan­skilið og hefur Seðla­bankinn til dæmis lækkað stýri­vexti nokkuð ört upp á síð­kastið.

Ás­geir bendir á að síðustu 500 ár eða svo hafi skæðir heims­far­aldrar af in­flúensu geisað um tvisvar til þrisvar á öld.

„Enginn man lík­lega nú eftir eftir hinni svo kölluðu „Asíu­f­lensu“ árið 1957 eða „Hong Kong“ inflúensunni árið 1968. Þetta voru þó mjög mann­skæðir flensu­far­aldrar á tuttugustu öld – þó ekki komist þeir í hálf­kvisti við spænsku veikina er varð 21-50 milljónum manna að aldur­tila um heim allan.“

Ás­geir segir að það sér­staka við Co­vid-19 far­aldurinn sé ekki veikin sjálf heldur við­brögðin við henni. Fjöl­mörg ríki hafa gripið til mjög rót­tækra sótt­varnar­ráð­stafana; sum hafa sett á sam­komu­bann á meðan önnur hafa sett á út­göngu­bann. Ás­geir segir að þessar ráð­stafanir eigi sér ekki hlið­stæðu en ó­hjá­kvæmi­legur fylgi­fiskur sé efna­hags­legur kostnaður sem þeim fylgir. Þær gætu hæg­lega leitt til djúprar en vonandi skamm­vinnar efna­hags­dýfu.

„Töpuð fram­leiðsla og tapaðar tekjur eru það gjald sem við erum að sjálf­sögðu til­búin að greiða ef við getum bjargað manns­lífum. Það er því mjög mikil­vægt að við Ís­lendingar höfum þetta í huga áður en við sökkvum okkur í bar­lóm, nei­kvæðni eða sjálfs­vor­kunn. Við þurfum nú öll að færa fórnir sem vonandi hafa þá þýðingu að bjarga manns­lífum – en engir björgunar­pakkar af hálfu hins opin­bera geta tekið þessi ó­þægindi af okkur nema að mjög tak­mörkuðu leyti.“

Ás­geir endar pistilinn svo á þessum orðum:

„Þeir peningar sem nú sparast vegna þess að fólk situr heima hverfa ekki - heldur munu seytla aftur inn í hag­kerfið um leið og far­aldurinn hefur gengið yfir. Hag­sældin mun koma aftur - og vonandi fyrr en varir.“