Ásgeir barnalæknir þakklátur Hrafni: „Hrafn gaf börnum á Barnaspítala Hringsins dýrmæta gjöf“

Hrafn Jökulsson, rithöfundur og blaðamaður, verður jarðsunginn frá Hallgrímskirkju í dag. Hrafn lést þann 17. september síðastliðinn eftir baráttu við krabbamein og minnast hans margir í minningargreinum í Morgunblaðinu í dag.

Meðal þeirra sem skrifa grein um Hrafn má nefna Össur Skarphéðinsson, Jakob Bjarnar Grétarsson, Guðni Ágústsson, Katrín Jakobsdóttir og hjónin Jón Baldvin Hannibalsson og Bryndís Schram.

Ásgeir Haraldsson, barnalæknir á Barnaspítala Hringsins, minnist Hrafns einnig með hlýhug enda áttu börnin stóran þátt í lífi Hrafns. Hann hlaut til dæmis viðurkenningu Barnaheilla – Save the Children árið 2015 fyrir framlag sitt til velferðar barna á Íslandi og Grænlandi. Þá var hann fastagestur á spítalanum þar sem hann mætti og kenndi börnum að tefla.

„Með trega kveð ég vin minn og velunnara Barnaspítala Hringsins, Hrafn Jökulsson. Ég kynntist Hrafni fyrir mörgum árum. Þá kom Hrafn að máli við okkur á Barnaspítala Hringsins og spurði hvort hann mætti koma og tefla við krakka sem þurftu að dvelja á spítalanum. Í kjölfarið hóf hann svo að koma á leikstofu Barnaspítala Hringsins flesta fimmtudaga um árabil, stundum einn en oft með öðrum félögum úr Hróknum, oftast Róberti Lagerman,“ segir Ásgeir meðal annars.

„Auðvitað kunnu mörg barnanna ekkert að tefla! Þá var bara að byrja á mannganginum. Hrafn og félagar voru vinsælir hjá krökkunum enda gáfu þeir sér góðan tíma og yfir skákinni var rætt um heima og geima. Alltaf voru börn á Barnaspítalanum sem höfðu áhuga á að tefla og gleyma sér við taflborðið. Þeir félagar áttu auðvelt með að ná til krakkanna og gerðu mörgum þeirra lífið léttara í glímu við ýmsa sjúkdóma. Vinátta okkar Hrafns hélst æ síðan.“

Ásgeir segir að í allmörg skipti hafi þeir teflt við hvorn anna, bæði á Barnaspítalanum en einnig á viðburðum sem hann skipulagði til að styrkja ýmis góð málefni.

„Skákirnar voru allar svipaðar. Eftir tiltölulega fáa leiki var Hrafn jafnan með yfirburðastöðu – og þá bauð hann mér jafntefli! Hrafn gaf börnum á Barnaspítala Hringsins dýrmæta gjöf. Hann gaf þeim ríkulega af tíma sínum. Hann var einstaklega viðmótsþýður og ljúfur, ákaflega brosmildur, hlýr og jákvæður. Fyrir hönd Barnaspítala Hringsins, barna sem tefldu við Hrafn og félaga hans í Hróknum og fyrir hönd foreldra þeirra þakka ég Hrafni Jökulssyni fyrir gjöf hans. Persónulega þakka ég Hrafni áralanga vináttu. Hvíl í friði kæri vinur. Fyrir hönd Barnaspítala Hringsins, Ásgeir Haraldsson barnalæknir.“