Ás­dís um Ráð­herrann: „Get ekki enn á­kveðið hvort þátturinn sé góður eða slæmur“

„Það verður bara að segjast að sjón­varps­stöðvarnar og Net­flix eru að bjarga geð­heilsunni nú þegar ekkert má gera og ekkert má fara,“ segir Ás­dís Ás­geirs­dóttir, blaða­maður á Morgun­blaðinu, í ljós­va­ka­pistli sínum á sjón­varps­síðu blaðsins í dag.

Eftir­spurn eftir góðu sjón­varps­efni hefur trú­lega sjaldan verið meiri en ein­mitt nú. Ás­dís segir að hún sé smátt og smátt að breytast í sjón­varps­sjúk­ling nú þegar ekki er hægt að sækja leik­rit, tón­leika eða fara í matar­boð.

„Ný­lega datt ég inn í seríurnar Suits, með Meg­han Mark­le, nú giftri Harry Breta­prinsi, í aðal­hlut­verki. Seríurnar eru níu og er ég um það bil hálfnuð, þannig að nóg er eftir af lög­fræði­drama! Svo reyni ég eftir fremsta megni að fylgjast með Ráð­herranum á RÚV. Ég get ekki enn á­kveðið hvort þátturinn sé góður eða slæmur,“ segir hún.

Ráð­herrann hefur notið tölu­verðra vin­sæla hér á landi og þykir ef­laust flestum þeim sem enn horfa þættirnir vera góðir. Ásdís segir að mikið hafi verið lagt í þættina og í þeim sé valinn maður í hverju rúmi. Þó að sumir séu búnir að gefast upp sé hún enn að horfa og er hún ekki frá því að þættirnir fari batnandi.

„En sumt gengur ekki alveg upp. Aðal­per­sónan, sem Ólafur Darri reyndar leikur snilldar­vel, hefur full­lítið vit á stjórn­málum, sjálfur for­sætis­ráð­herrann. Og mögu­lega er fólk í maníu svona undar­lega barna­legt, þótt ég efist um það. Þrátt fyrir allt styð ég ís­lenskt sjón­varps­efni alla leið og mun halda á­fram að horfa,“ segir hún.