Ásdís Halla baunar á Björn Inga: „Þetta er nú ómaklegt mín kæra“

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og fyrrverandi oddviti Framsóknarflokksins í Reykjavík, segir að hann hafi samúð með frambjóðendum í kosningabaráttu þótt hún geti verið bráðskemmtileg. Hann notar tækifærið og rifjar upp sína sögu úr kosningunum 2006:

„Grenntist helling og var áberandi á flettiskyltum, dreifibréfum og auglýsingum. Kannanir voru ekki hagstæðar, en úrslitin komu ánægjulega á óvart. Ég varð formaður borgaráðs og svo aftur í hundrað daga borgarstjáratíðs Dags og Tjarnarkvartettsins. Nokkru síðar var komið á algjört óefni með þáverandi borgarstjóra,“ segir Björn Ingi á Facebook. „Þótt ég hefði sagt af mér þegar Ólafur F sneri aftur til starfa og orðið borgarstjóri í enn einum meirihlutanum, báðu Sjálfstæðismenn mig fyrst að hætta við að hætta. Og buðu margt í þeim efnum.“

Björn Ingi segir að hann og Kjartan Gunnarsson hafi orðið sammála þegar Ólafur F. Magnússon var orðinn óvinsæll borgarstjóri að svo mætti ekki standa. „Ég ráðfærði mig Alfreð heitinn Þorsteinsson forvera minn og Óskar Bergsson eftirmann minn og til varð nýtt samstarf Framsóknar og Sjálfstæðisflokks með Hönnu Birnu sem vinsælan borgarstjóra. Allt hófst það á málsverði okkar Kjartans á Hótel Holti og eftir það varð atburðarásin hröð.“

Ásdís Halla Bragadóttir, rithöfundur og fyrrverandi bæjarstjóri Garðabæjar, baunaði svo á Björn Inga í athugasemd:

„Árið er 2021 og enn keppast karlmenn um að skrifa söguna á þann veg að þeir taki allar ákvarðanir sem skipta máli. Það eina sem vantar í þennan texta er að þið strákarnir hafið sent einu konuna, sem nefnd er á nafn út í búð til að kaupa sér huggulega dragt áður en hún tók að sér hlutverk gluggaskrautsins. Sagan ... sem þarf að skrifa upp á nýtt ...“

Björn Ingi segir þetta ómaklegt:

„Hmm. Þetta er nú ómaklegt mín kæra. Hanna Birna er góð vinkona og stóð sig frábærlega og algjörlega á eigin verðleikum. Óskar líka. En svona gerðist það nú samt að meirihlutinn með Ólafi borgarstjóra féll og þessir flokkar tóku við. Það þurfti að fá fólk saman að borðinu og hugsa hlutina upp á nýtt. Framhaldið var þeirra og gekk vel. Fram að næstu kosningum.“