Ásdís Halla á leið til Íslands: Vill ekki sjá að fólk verði skikkað á sóttvarnarhótel

Ásdís Halla Bragadóttir, stjórnmálafræðingur og fyrrverandi bæjarstjóri í Garðabæ, segir að fyrirhugað frumvarp Samfylkingarinnar, sem myndi skylda alla til að fara á sóttkvíarhótel við komuna til landsins, sé ekkert nema ósmekklegur popúlismi. Ásdís er sjálf væntanleg til Íslands í næstu viku.

Hún skrifaði grein á Facebook-síðu sína í morgun þar sem hún rifjaði upp að fíkniefnalögreglan hafi eitt sinn fyrir margt löngu beðið hennar á Keflavíkurflugvelli þegar hún kom til landsins.

„Ég var tekin afsíðis í klefa, á mér leitað hátt og lágt, allt í töskunni tekið í sundur og skoðað gaumgæfilega. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið en fíkniefnalögreglan var sannfærð um að ég væri að flytja inn ólögleg efni. Þegar ég bað um skýringar var svarið einfaldlega: Þú ert systir bræðra þinna! Bræður mínir, blessuð sé minning þeirra, höfðu báðir komist í kast við lögin og útgangspunktur fíkniefnalögreglunnar var sá að allt þetta hyski hlyti að vera eins.“

Algjör niðurlæging

Ásdís segir að henni hafi fundist örla á vonbrigðum þegar ekkert fannst og henni var hleypt út með trega. Fas yfirvaldsins hafi verið þannig að ef það fengi einhverju ráðið ætti að loka hana inni. Til vonar og vara.

„Niðurlægingin var algjör og ég var fullkomlega varnarlaus. Eftir sat tilfinningin um að einstaklingurinn mætti sín lítils þegar yfirvaldið tekur til sinna ráða.“

Ásdís nefnir svo að hún leggi af stað heim til Íslands í næstu viku eftir að hafa unnið í Kaupmannahöfn í nokkrar vikur, í verkefni sem hvergi er hægt að vinna nema í borginni.

„Ég hef unnið frá morgni til kvölds, að mestu ein með sjálfri mér, en reglulega farið í yndislegar í gönguferðir í danska vorinu. Eina manneskjan sem ég hef hitt utan vinnunnar er æskuvinkona sem vinnur á leikskóla þar sem allir starfsmenn fara í skimanir til að ekki komi upp hópsmit. Blessunarlega hafa þau vinnubrögð sveitarfélagsins skilað góðum árangri.“

Afturhvarf til fortíðar?

Hún bætir við að í Kaupmannahöfn hafi hún farið eftir tilmælum um sóttvarnir og áður en hún leggur í hann til Íslands fari hún í COVID-próf. Með neikvæða niðurstöðu í farteskinu verði henni hleypt í vél Icelandair, annars ekki. Annað COVID-próf muni svo bíða á Keflavíkurflugvelli og það þriðja nokkrum dögum síðar. Segir hún að fjölskyldan heima hafi gert ráðstafanir svo að hún geti farið beint í sóttkví í rými með sér inngangi og baðherbergi sem enginn annar notar.

„Ég fylgist með fréttum að heiman og sé að Samfylkingin ætlar að leggja fram frumvarp sem skyldar alla á sóttkvíarhótel sem koma til landsins. Ástæðan er einföld. Fyrir einhverju síðan kom til landsins maður sem virti hvorki reglur um sóttkví né einangrun. Í framhaldinu kom upp hópsmit og mér skilst að það hafi meðal annars gerst vegna þess að starfsmaður á leikskóla mætti til starfa þrátt fyrir að vera með flensueinkenni. Hvorugt er til eftirbreytni.“

Ásdís Halla segir að því miður sé veruleikinn sá að alltaf séu einhverjir sem ekki fara eftir lögum, reglum og tilmælum.

„Þær fáu undantekningar mega aldrei verða til þess að öllum verði hegnt. Eitt það besta sem gerst hefur á Íslandi undanfarin ár og áratugi er að við höfum reynt að efla skilning á ólíkum aðstæðum fólks, reynt að auka umburðarlyndi og víðsýni. Reynt að taka á málum af þekkingu en ekki sleggjudómum. Fyrirhugað frumvarp Samfylkingarinnar er afturhvarf til fortíðar. En það er ekki bara forneskjulegt heldur ósmekklegur popúlismi. Það rifjar upp fordómana sem ég þekki svo vel. Gengur út frá því að allir sem koma frá útlöndum hljóti að vera eins. Glæpamenn. Línan er einföld: Lokum allt þetta hyski inni. Bara svona til vonar og vara.“