Árni: Pulsur og kar­töflu­salat á okur­verði – Aldrei van­meta neyslu­brjál­æði Ís­lendinga

3. júlí 2020
09:31
Fréttir & pistlar

„Okkur dugir ekki fiskur dagsins og vatns­glas, heldur sjö rétta mat­seðillinn og sér­valin vín,“ segir Árni Helga­son, lög­fræðingur og pistla­höfundur, í bak­þönkum Frétta­blaðsins í dag.

Þar skrifar Árni um neyslu­gleði Ís­lendinga og veltir fyrir sér hvort okkar eigin neyslu­geggjun verði leið okkar út úr kreppunni.

„Ég sá á dögunum Face­book-status frá hóteli á lands­byggðinni um að sumarið í ár væri að þróast allt öðru­vísi en til stóð. Í upp­hafi var búist við að þetta yrði eitt erfiðasta sumar seinni tíma, enda varla einn einasti er­lendur ferða­maður á landinu. Það hafi þó heldur betur ekki orðið raunin, sumarið væri að þróast í að verða eitt það besta lengi. Á­stæðan er ein­föld: ís­lenskir ferða­menn,“ segir Árni sem segir að aldrei megi van­meta neyslu­æði Ís­lendinga í sumar­fríi.

„Þótt þjóðin sé að jafnaði að reyna að svelta sig heilu og hálfu dagana, með ketó, fimm-tveir, sau­tján-sjö eða hvað sem allir þessir ó­hamingju­kúrar eru kallaðir, þá halda okkur engin bönd þegar við komumst í frí. Þá er það ekki lengur hrökk­brauð og hvers­dags­leiki heldur standandi veisla,“ segir hann en ef­laust eru ein­hverjir sem kannast við þetta.

Hann segir að bara það eitt að skjótast upp í sumar­bú­stað eina helgi út­heimti ham­fara­kaup af snakki, æði­bitum, gosi, maríneruðum kótilettum, pönnu­kökum, sírópi og beikoni í morgun­mat, grill­sósum, í­dýfu, nammi í stórum dunkum og öðrum lífsins lysti­semdum. Segir hann að Ís­lendingar sem byði upp á soðna ýsu í sumar­bú­stað yrði senni­lega flæmdur burt af svæðinu og bú­staðurinn í fram­haldinu tekinn eignar­námi.

„Þetta er ó­vísinda­leg full­yrðing en ég held að meðal Ís­lendingurinn, sem er ný­búinn að stilla á Out of office og gönnar þjóð­veginn með klippi­kort á hótel og ný­keyptan tjald­vagn í eftir­dragi, sé á við alla­vega fimm mat­granna evrópska ferða­menn í neyslu og eyðslu. Okkur dugir ekki fiskur dagsins og vatns­glas, heldur sjö rétta mat­seðillinn og sér­valin vín. Við pökkum ekki nesti heldur treystum á að bensín­sjoppur landsins selji okkur pulsur og kar­töflu­salat á okur­verði,“ segir hann og endar grein sína á þessum orðum:

„Það skyldi þó vera að okkar eigin neyslu­geggjun verði leiðin út úr kreppunni?“