Árni Páll fengið nóg: Ætlar að loka veginum við Keflavíkurflugvöll

Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra hnetusmjör, hefur farið mikinn í umræðunni um sóttvarnaraðgerðir á landamærunum og gagnrýnt ófullnægjandi aðgerðir við landamærin.

Um helgina hótaði hann því að teppa Reykjanesbrautina ef tilslakanir á landamærunum myndu leiða til nýrrar smitbylgju – eins og raunin virðist ætla að verða. Í gær greindist 21 smit innanlands og eru þau komin yfir 60 síðustu þrjá daga.

Nú hefur Árni Páll fengið nóg ef marka má viðburð sem hann stendur fyrir á Facebook. Hann hefur nú boðað til mótmæla við Keflavíkurflugvöll á sunnudaginn næstkomandi.

„Við höfum fengið nóg af því að óábyrgir ferðalangar beri smit inn í landið. Frétt eftir frétt sjáum við aftur og aftur að smit eru rakin til landamæranna. Nú síðast eru börn á leikskólaaldri smituð vegna brots á sóttkví. Við höfum trekk í trekk lýst yfir óánægju okkar og stjórnvöld hafa ekki hlustað. Nú sjáum við ekki annað í stöðunni en að mæta á veginn við Keflavíkurflugvöll og hindra umferð inn í landið í nokkrar klukkustundir í mótmælaskyni. Vert er að taka fram að við munum einungis leggja bílum frá flugvellinum að hringtorginu svo við hömlum ekki nauðsynlega þjónustu fyrir íbúa á Suðurnesjum. Ég hvet alla sem hafa fengið sig fullsadda til að mæta og jafnframt halda sig inni í bílunum til að gæta að sóttvörnum,“ segir á Facebook-síðu viðburðarins.

Þegar þetta er skrifað hafa 116 boðað komu sína á mótmælin og næsta víst að þeim muni fjölga á næstum dögum.