Árni óttast brask með ferða­gjöfina og vill fara þessa leið í staðinn – „Peningar myndu flæða“

„Þessi þjóðar­gjöf er miklu fremur á­vísun á brask en á ferða­lög innan­lands,“ segir Árni Þor­valdur Jóns­son arki­tekt í að­sendri grein í Frétta­blaðinu í dag.

Þar gerir Árni um­talaða 5.000 króna ferða­gjöf til allra lög­ráða Ís­lendinga að um­tals­efni. Sitt sýnist hverjum um ferða­á­vísunina, sumum þykir upp­hæðin helst til of lág, á meðan aðrir benda á að hún stuðli að því að létta undir með ferða­þjónustunni sem er í mjög þröngri stöðu um þessar mundir.

Árni vill þó að önnur leið verði farin því hann telur að um­gjörðin bjóði upp á að braskað verði með á­vísunina.

Hægt að selja tékkann

„Hvers vegna ætti maður að gefa tékkann ef hann getur selt hann? Og það sem er enn stærri spurning: Hver er til­búinn til þess að greiða fullt verð fyrir? Nei, þessi þjóðar­gjöf er miklu fremur á­vísun á brask en á ferða­lög innan­lands. Og hverjir græða mest á braski ef ekki þeir sem best hafa efni á því að ferðast? Sá sem ekki getur nýtt sér sinn eigin tékka vill trú­lega fá 2-3.000 krónur í vasann frekar en að þetta í­gildi 5.000 króna brenni upp í árs­lok. Þessi gjöf gerir lítið annað en að auka að­stöðu­mun þeirra sem geta og þeirra sem geta ekki. Miðað við á­giskun um að tékkarnir fengjust á 2-3.000 krónu þýðir það 40-60% eða 28 til 42 þúsund króna auka­af­slátt á ferða­kostnaði fyrir þann sem nýtir bara hið „ekki heilaga“ há­mark.“

Árni veltir fyrir sér hvort ekki væri gáfu­legt að hætta við þessa að­ferð og hugsa frekar heild­rænt. Leggur hann til að sams­konar endur­greiðslu­kerfi verði tekið upp og er í gildi um endur­greiðslu af virðis­auka­skatti af vinnu iðnaðar­manna.

„Allir ferðast“-endurgreiðslukerfi

„Hvers vegna gerir ríkis­stjórnin ekki ein­fald­lega svipað fyrir ferða­manna­iðnaðinn og kemur á fót „Allir ferðast“ endur­greiðslu­kerfi fyrir ferða­kostnað al­mennings? Það myndi hafa miklu meiri marg­feldis­á­hrif og inn­spýtingu í at­vinnu­veginn. Fólk fengi endur­greiddan hluta út­lagðs kostnaðar við gistingu og veitingar hjá ferða­þjónustu­aðilum um land allt. Peningar myndu flæða í mun meira mæli inn í ferða­þjónustuna og starf­semi komast í eðli­legra horf.“

Árni telur að fleiri fyrir­tæki gætu haldið uppi starf­semi og haldið starfs­fólki með verð­mæta starfs­reynslu á þessum sam­dráttar­tímum.

„Á móti endur­greiðslu ríkisins kæmu peningar í auknum skatt­tekjum og minnkandi at­vinnu­leysis­bótum. Þjónusta sem nú er vel slípuð víðast hvar um landið væri tryggð hjá vel reknum fyrir­tækjum þann tíma sem það tekur að fá er­lenda ferða­menn í meira mæli til landsins aftur, og lands­menn fengju kær­komið tæki­færi til að kynnast landi sínu betur. Barna­fjöl­skyldur sem fá sam­kvæmt þessari gjöf að­eins 10.000 krónur (á par) í ferða­styrk, fengju sann­gjarnan hlut af hvatningunni, enda ekki síður mikil­vægt að kynna ungu kyn­slóðinni hina mjög svo rómuðu náttúru landsins, og gætu þær nýtt sér fyrsta flokks veitingar og gistingu um allt land. Þegar heim er komið sækja menn svo um endur­greiðslu frá ríkis­skatt­stjóra gegn fram­vísun full­gildra kvittana.“