Árni johnsen mun koma öllum á óvart

Árni Johnsen mun sópa til sín fylgi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer þann 10. september nk. Hann hefur verið duglegur að heimsækja kjósendur og kynna hugmyndir sínar um hagsmunamál kjördæmisins. Hann hefur gagnrýnt þingmenn flokksins harðlega og í viðræðum við kjósendur hefur hann rökstutt fyllyrðingar sínar og orðið ágengt. Margir eru slegnir yfir þeim staðreyndum að afrekaskrá þingmanna flokksins eftir kjörtímabilið er afar rýr í roðinu.
 
Þrátt fyrir það er talið að enginn nái að hrófla við Ragnheiði Elínu í efsta sæti þó hún sé almennt kölluð “verklausi ráðherrann” meðal kjósenda.
 
Athygli vekur hve litlar undirtektir Páll Magnússon fær í kjördæminu. Enginn spenningur er fyrir honum nema þá helst í Vestmannaeyjum þar sem bæði Árni Johnsen og Ásmundur Friðriksson njóta einnig fylgis. Eyjamenn munu kjósa þá alla. Gegnheilir flokksmenn í kjördæminu segja sem svo að Sjálfstæðisflokkurinn sé þrátt fyrir allt ekki svo illa staddur að hann þurfa að bjóða fram Krata eða Samfylkingarmann eins og Pál Magg. Flokkurinn hafi einnig rekið hann frá RÚV og fyrir því hljóti að vera gildar ástæður. Þá svíður mörgum hvernig hann hefur birt fjölmargar meiðandi greinar um einn af ráðherrum flokksins, Illuga Gunnarsson, sem lét reka hann frá RÚV. Mönnum mislíkar sá hefndarhugur sem komið hefur fram hjá Páli. 
 
Árni Johnsen er ekki hvað síst þekktur fyrir dugnað og eljusemi við að ýta áfram málefnum kjördæmisins á þingi. Hann viðurkennir fúslega að hann sé “fyrirgreiðslupólitíkus” og býður fram þjónustu sína að nýju sem slíkur.
 
Þann 4. ágúst sl.  birti Árni Johnsen harðorða grein í Morgunblaðinu þar sem hann sagði að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi engu áorkað fyrir kjördæmið allt þetta kjörtímabil. Hann spurði hvað þau hafi gert á kjörtímabilinu og svaraði svona: “Ekki neitt, hreinlega ekki neitt sem hefur komið Suðurkjördæmi til góða. Þau hafa lagt fram þrjú mál, ráðherrann mál um staðgöngumæðrun, sem líklega verður aldrei hægt að samþykkja vegna þess að það er ekki hægt að tryggja rétt barnsins, mál um náttúrupassa sem allir vita hvernig fór og þingmannamál um sölu áfengis í búðum, dapurlegt mál. Þetta er allt of sumt.”
 
Mörgum þótti Árni harðorður í greininni. En þegar betur er að gáð, kemur í ljós að hann hefur rétt fyrir sér. Þingmenn flokksins hafa verið arfaslakir á öllu kjörtímabilinu og því eru margir kjósendur flokksins hugsi yfir komandi prófkjöri og segja sem svo: Með því að gefa Árna Johnsen tækifæri að nýju er allt að vinna, engu að tapa.