Árni johnsen leysir forystukreppu sjálfstæðisflokksins

Stórtíðindi berast nú úr Suðurkjördæmi. Árni Johnsen ætlar að taka þátt í prófkjöri sjálfstæðismanna og lýsir því yfir að í prófkjöri flokksins fyrir 4 árum hafi meðframbjóðendur hans tekið höndum saman og plottað gegn honum. Þar vísar hann til Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, Unnar Konráðsdóttur og Ásmundar Friðrikssonar. Þau hafi haft erindi sem erfiði, fellt Árna út af listanum og raðað sér í þrjú efstu sætin.
 
Þessar ásakanir eru vafalaust sannar og þær hljóta að teljast stórtíðindi innan flokksins í aðdraganda prófkjörs. Árni er þrautreyndur þingmaður en það er einmitt skortur á reynslu sem einkennir þingflokk Sjálfstæðismanna nú um stundir, eins og reyndar fleiri þingflokka. Flesta þingflokka. Árni Johnsen gæti átt eftir að koma verulega á óvart í prófkjörinu sem fram fer þann 10. september nk. Fréttamaður spurði Árna hvort hann mætti ekki búast við því að þremenningarnir tækju höndum saman að nýju og plottuðu gegn honum. Hann sagðist ekki eiga von á því vegna þess að nú eru þau komin í slag gegn hvort öðru.
 
Áður hafði komið fram að Ásmundur Friðriksson “færi hálfa leið í Ragnheiði Elínu.” Kjarninn orðaði það þannig þegar Ásmundur tilkynnti um framboð sitt og sagðist vilja fyrsta til annað sætið. Fyrir í þeim sætum eru Ragnheiður Elín og Unnur Brá sem báðar sækjast eftir endurkjöri. Því var sagt að Ásmundur færi háfpartinn fram gegn þeim báðum! Í fréttinni var vitnað í Ásmund sem sagðist hafa fengið fjölda áskoranna um að bjóða sig fram í forystusætið. Þá rifjast upp fleyg orð Steingríms Hermannssonar þegar hann flutti sig úr Vestfjarðakjördæmi á Reykjanesið og sagði spurður um orðróm þar að lútandi: “Ja, því er ekki að neita að margir hafa komið að máli við mig …………..”
 
Vandræði Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi eru að verða sirkus sem þjóðin fyldist með sér til skemmtunar. Ragnheiður Elín hefur brugðist sem ráðherra. Flokkseigendum líst illa á að hún leiði lista flokksins í komandi kosningum. Af því tilefni var reynt að tefla Elliða Vignissyni bæjarstjóra í Vestmannaeyjum fram og vísað til mikils fylgis í skoðanakönnun. Sú könnun náði víst bara til Eyjamanna en engin eftirspurn var eftir hfonum á meginlandinu. Því hætti hann við. Þá var að nýju farið að nefna Pál Magnússon sem er til í framboð fyrir hvern sem er, bara ef það skilar þingsæti. Sú hugmynd var hlegin út af borðinu.
 
Við þessar aðstæður kom Ásmundur fram með yfirlýsingu um að hann vildi fyrsta til annað sætið – fór “hálfa leið” gegn Ragnheiði Elínu.
 
Fólk var varla búið að meðtaka boskap Ása þegar Árni Johnsen steig fram og vill nú endurheimta sæti sitt. Gamli reynsluboltinn stekkur inn í hringinn á örlagastundu og heilsar meðframbjóðendum sínum að sjómannasið.
 
Forystukrísa Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi er leystur. Árni Johnsen er bjargvætturinn.