Arn­grímur þolir ekki vespurnar: „And­lit mitt og geð fyllist önug­heitum og pirringi“

„And­lit mitt og geð fyllist önug­heitum og pirringi þegar ég sé ung­lingana í dag sveima um á raf­hjólunum, sem oft eru nefnd vespur í dag­legu tali,“ segir Arn­grímur Stefáns­son guð­fræðingur í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag.

Í grein sinni fjallar Arn­grímur um vespu­notkun ung­menna en sitt sýnist hverjum um hana. Dæmi eru um að ung­menni hafi farið ó­var­lega á vespunum en eitt eftir­minni­legasta dæmið er frá því í fyrra­sumar þegar lög­reglan á Suður­nesjum birti mynd af fimm ung­mennum sem voru saman á einni vespu. Myndina má sjá hér að ofan.

Hvimleiðari en skordýrin með sama nafn

Arn­grímur segir að hann hafi fagnað 30 ára af­mæli sínu í sumar og geti því loks talist mið­aldra. „Því er ekki ó­eðli­legt að ég noti mér ný­unnin réttindi til að röfla ör­lítið yfir ung­dómnum í dag.“

Arn­grímur segir að í sann­leika sagt sé þessi plága, það er vespu­notkun ung­menna, orðin hvim­leiðari en skor­dýrin sem nefnast vespur hafa nokkurn tímann orðið hér á Ís­landi.

„Helsta vanda­málið er ef­laust að reið­menn vespanna eru allt of ungir. Þeir eru ein­fald­lega ekki nægi­lega þroskaðir til að skilja hvers vegna ég þarf alltaf að röfla um notkun þeirra,“ segir Arn­grímur sem kveðst sjálfur eiga ung­ling sem vill ólmur fá vespu.

„Því vil ég freista þess að hræða nokkra for­eldra frá vespu­fjár­festingum með því að benda á að vespur eru skráningar­skyldar. Ekki virðist hafa reynt á það fyrir rétti en iðu­lega er nú staðan þannig að eig­andi sem er skráður fyrir öku­tæki ber hlut­læga á­byrgð á tjóni sem öku­tækið veldur, hvort sem það var með sak­næmum hætti eða um al­gera hendingu að ræða,“ segir hann og nefnir dæmi máli sínu til stuðnings. Ef bíll sem settur er í hand­bremsu – og hand­bremsan af ein­hverjum á­stæðum gefur sig með þeim af­leiðingum að bif­reiðin rennur á­fram og veldur tjóni – þá sé það á á­byrgð eig­anda bílsins.

Foreldrar þurfa að bæta tjón

„Hins vegar þurfa fæstir bif­reiðar­eig­endur að borga slíkt tjón, sem væri mjög fjár­hags­lega í­þyngjandi. Til þess höfum við lög­bundnar á­byrgðar­tryggingar. En vespur þurfa ekki þessa lög­bundnu á­byrgðar­tryggingu,“ segir hann og bætir við að það sé því í verka­hring for­eldra barna að bæta það tjón sem börn valda á raf­vespunum.

„Ein­hverjir kunna ef til vill að benda á að veg­far­endur gang­brauta séu á­vallt í rétti. En gangandi og hjólandi veg­far­endur eru ekki á öku­tækjum sem eru skráningar­skyld. Það eru öku­menn vespa hins vegar. Því má líkur leiða að því að fyrir dómi yrði öku­manni vespu gefin staða öku­manns vél­knúins farar­tækis en ekki gangandi veg­faranda. Þá yrði ef til vill til lítils að benda á að vespunni hefði verið ekið eftir gang­stétt.“

Arn­grímur segir að flest höfum við séð að börnin virðast aka vespunum á þeim vegi sem hentar þeim best hverju sinni. Sjálfur segist hann hafa séð börn koma yfir gang­braut og beygja inn á veginn þegar þau voru komin hálfa leið yfir gang­brautina.

„Því er hreint ekki hægt að ganga út frá því að vespunni sé alltaf ekið á gang­braut. En trygginga­fé­lög bjóða upp á á­byrgðar­tryggingu fyrir vespur. Ekki hef ég kynnt mér hana en hún er ef­laust dýr í ljósi þess að um­ráða­maður öku­tækisins er oft 13 ára barn sem getur ekki gengið í skólann dag­lega án þess að missa og brjóta símann sinn tvisvar á ári. Auk þess þarf að vera á hjóli sem má bera tvo far­þega, og hafa náð tuttugu ára aldri, til að bera far­þega. Ekki sé ég nein börn virða þá reglu og lík­legt er að barnið aftan á trufli öku­mann með barna­látum, fífla­skap og glensi, sem enn eykur slysa­hættuna. Því er ekki ó­lík­legt að trygging á léttu bif­hjóli sé hreint ekki ó­dýrari en trygging bif­reiðar vegna slysa­hættunnar.“

Bann eða sekt

Arn­grímur nefnir loks að létt bif­hjól keyri oft niður gangandi veg­far­endur og í slíkum til­fellum verði að láta skráðan eig­anda bif­hjólsins bera hlut­læga á­byrgð vegna líkams­tjóns.

„Eitt er þó ekki ljóst, en það er hvort létt bif­hjól eigi að eiga for­gangs­réttindi í um­ferðinni þegar öku­menn þeirra reyna að keyra yfir gang­braut eða ekki. Nú eru hjólin oft bæði á götunni og gang­stéttinni og því er hérna vafa­mál sem ég tel nauð­syn­legt að leysa. Börnin keyra oft hratt að gang­brautunum og stoppa ekki né at­huga um­hverfið er þau keyra yfir. Ég tel rétt að taka þurfi á­kvörðun um að annað­hvort banna léttu bif­hjólin á gang­stéttinni eða á götunni, og sekta fyrir slík brot. Skuli þau leyfð á götunni ætti það ein­göngu að vera innan­bæjar þar sem há­marks­hraðinn er 15-50 km á klukku­stund.“

Arn­grímur segir að þetta myndi eyða mikilli ó­vissu.

„Það út­rýmir þeirri ó­vissu hvort ég þurfi að víkja fyrir léttu bif­hjóli sem fer af götunni og upp á gang­stétt þegar að gatna­mótum er komið til að forðast bið­skyldu og þurfa ekki að horfa í kringum sig. Hér þarf nauð­syn­lega að út­rýma allri ó­vissu til að um­ferðin geti gengið sem greið­legast fyrir sig.“