Arn­dís gagn­rýnir Dani fyrir að hleypa ekki konum sem gengu til liðs við ISIS inn í landið

Arn­dís Anna Kristínar­dóttir, þing­maður Pírata, hefur verið mjög gagn­rýnin á út­lendinga­frum­varp Jóns Gunnars­sonar dóms­mála­ráð­herra en önnur um­ræða frum­varpsins hefur staðið yfir þessa vikuna.

Frum­varpið er breyting á lögum um út­lendinga frá 2016. Frum­varpinu er ætlað að auka skil­virkni við með­ferð um­sókna um al­þjóð­lega vernd. Hefur frum­varpið verið um­deilt og mætt and­stöðu hjá Pírötum, Við­reisn og Sam­fylkingunni. Meðal annars er tekist á um á­kvæði þess efnis að um­sækj­endur sem hafa fengið höfnun á um­sókn sinni um vernd skuli ekki njóta uppi­halds og vel­ferðar­þjónustu eftir til­tekinn tíma en DV.is greinir frá.

Arn­dís hefur sagt frum­varpið skorta mann­úð og virðingu fyrir fólki á flótta en hún og Diljá Mist Einars­dóttir, þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins, tókust á um málið í gær. Diljá spurði Arn­dísi hvort hún hafi orðið vör við skort á mann­úð hjá ná­granna­ríkjum Ís­lands þar sem lög­gjöf þar væri sam­bæri­leg.

„Til að mynda þessi þjónustu­skerðing sem hátt­virtur þing­maður hefur gagn­rýnt harð­lega, hvort hún sé ekki fram­kvæmd á Norður­löndunum ein­mitt og víðast hvar í Evrópu.“

Arndís Anna nýtti tæki­færið og sagði svo vera og gagn­rýndi Dani harð­lega fyrir harð­neskju í garð fólks sem gengið hefur í raðir öfga­sam­taka.

„Í Dan­mörku sá ég þessi við­horf. Raunar mun verri en ég átti von á. En það tengdist málum sem hafa ekki komið upp hér á landi, sem eru konur sem fóru til Sýr­lands og gengu til liðs við öfga­hópa þar. Lenda síðan í of­beldi. Þær eru danskir ríkis­borgarar, eiga upp­runa sinn í þessum ríkum en þær eru danskir ríkis­borgarar og vilja koma til baka. Og þær eru sviptar ríkis­borgara­rétti. En þær eiga börn og þá er auð­vitað spurningin, eiga þessi börn ekki rétt á að koma? Og við­horfin voru með ó­líkindum. Ég varð ör­lítið slegin þegar danskur þing­maður talar þannig að það sé rosa ó­sann­gjarnt af þessum konum að neita Dan­mörku um að taka börnin af þeim. Það var eins og dönsku þing­mennirnir væru hneykslaðir á því að konurnar vildu koma með. Þær neita að leyfa börnunum að koma til Dan­mörku nema þær fái að koma með. Það fannst mér mjög sláandi.“

Arn­dís stað­hæfði hins vegar að hvergi á Norður­löndunum tíðkaðist sú þjónustu­skerðing gagn­vart hælis­leit­endum sem boðuð væri í þessu frum­varpi: „Nei, hvergi á Norður­löndunum er fólk svipt þjónustu al­farið og endan­lega. Og í Dan­mörku, þar sem þau eru einna hörðust, sögðu þau ein­mitt: Að sjálf­sögðu ekki. Við viljum ekki hafa fólk búandi undir brúm hérna. Það sögðu Danirnir. Við ætlum að ganga enn lengra.“