Arnar Þór snýr aftur: „Nýj­ustu um­mæli Þórólfs ættu að virka sem blikk­andi viðvör­un­ar­ljós“

Arnar Þór Jónsson, lögmaður og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur látið lítið í sér heyra að undanförnu. En nú þegar kórónuveiran er aftur farin að láta að sér kveða ræðst Arnar Þór fram á ritvöllinn í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og skýtur nokkuð föstum skotum að Þórólfi Guðnasyni sóttvarnalækni.

Þórólfur var spurður að því á dögunum hvort til greina kæmi að herða takmarkanir að nýju í ljósi töluverðrar fjölgunar smita að undanförnu. Þórólfur svaraði því til að líklega „væri ekki mikil stemning“ fyrir því. Vísar Arnar Þór í viðtal RÚV við Þórólf þar sem hann sagði þetta og bætti við að ekki yrði gripið til takmarkana strax, það réðist af því hvernig faraldurinn þróast.

Arnar Þór telur ástæðu til að vekja athygli fólks á þessum orðum Þórólfs.

„Um­mæl­in um „stemn­ingu“ sem for­sendu vald­beit­ing­ar op­in­bera þann stjórn­ar­fars­lega háska sem ís­lensk stjórn­mál hafa ratað í. Þau eru til merk­is um öfugþróun sem beina verður kast­ljós­inu að: Lýðræðið deyr og rétt­ar­ríkið sundr­ast þegar vald og ótti sam­ein­ast; þegar stjórn­völd og stór­fyr­ir­tæki ganga í eina sæng; þegar fjöl­miðlar ganga gagn­rýn­is­laust í þjón­ustu vald­hafa; þegar fræðimenn kjósa starfs­ör­yggi frem­ur en sann­leiks­leit; þegar emb­ætt­is­menn setja eig­in frama ofar stjórn­ar­skrá; þegar ótta­sleg­inn al­menn­ing­ur af­sal­ar sér frelsi og rétt­ind­um í hend­ur manna sem boða „lausn­ir“. Allt eru þetta þekkt stef í alræðis­ríkj­um, þar sem stjórn­völd ala á ógn í þeim til­gangi að treysta völd sín.“

Arnar Þór heldur áfram í grein sinni og segir að í slíku umhverfi, þar sem stjórnmálamenn segja helst ekki annað en það sem til vinsælda er fallið, sé erfiðum ákvörðunum úthýst til sérfræðinga og embættismanna og fjölmiðlar notaðir til að framkalla „stemningu“.

„Fyrr eða síðar vakn­ar al­menn­ing­ur upp við þann vonda draum að hafa verið gerður áhrifa­laus um stjórn lands­mála. Um­mæli Þórólfs að und­an­förnu hafa gefið al­menn­ingi ríkt til­efni til að vakna af vær­um blundi,“ segir hann meðal annars.