Arnar Þór: Orkumiklir strákar lyfjaðir niður og settir á rítalín

Arnar Þór Jónsson, héraðsdómari og frambjóðandi í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í í suðvesturkjördæmi, vill gera gangskör að því að efla hag drengja í menntakerfi landsins.

Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við Arnar Þór í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Sagði Arnar að gera þurfi meiriháttar átak í menntamálum þjóðarinnar og þá sérstaklega þegar kemur að drengjum.

„Við þurfum að viðurkenna að menntastefnan hefur beðið skipbrot þegar að þriðjungur drengja er ólæs eftir tíu ár,“ sagði hann og bætti við að mikilvægt væri að leggja áherslu á grunnfög eins og lestur, skrift og reikning. Þá vill hann að drengjum verði veitt meira svigrúm í skólakerfinu og þeir ekki „lyfjaðir niður“ eins og gert er í stórum stíl.

„Við þekkjum öll stráka sem eru orkumiklir. Í nútímanum væru þeir sennilega lyfjaðir niður, settir á rítalín,“ sagði Arnar meðal annars.

Hann telur að Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, sé vel meinandi en þetta sé stórt fley sem þurfi að snúa.

„Ef við ætlum að vera farsæl þjóð þá þurfum við gagnrýna, sjálfstæða og siðræna hugsun, ef hún kemur ekki af heimilunum sem hún ætti að koma, þá ætti menntakerfið að gegna stóru hlutverki. Ef að fólk getur ekki lesið þá getur verið erfitt að rækta þessa þætti.“