Arnar segist ekki mega velja Aron Einar í lands­liðið: „Hann fellur enn undir þessa á­kvörðun stjórnar“

Arnar Þór Viðars­son, lands­liðs­þjálfari ís­lenska karla­lands­liðsins í knatt­spyrnu opin­beraði í dag hóp lands­liðsins sem mætir til leiks í Þjóða­deild UEFA í næsta mánuði. Stór nöfn vantar í ís­lenska hópinn og vekur at­hygli að Aron Einar Gunnars­son er ekki í hópnum.

„Ég er búinn að tala við marga af þeim sem eru ekki í hópnum. KSÍ gaf út frétta­til­kynningu í dag með á­kvörðun stjórnar. Það er léttir fyrir mig, ég hef kallað eftir ramma til að fara eftir frá því í septem­ber," sagði Arnar á blaða­manna­fundi í dag enfot­bolti.net greinir frá.

„Það hefur ekki verið skemmti­legt að sigla fram­hjá á­kveðnum hlutum. Aron Einar fellur enn undir þessari á­kvörðun stjórnar. Ég sem þjálfari vinn bara undir þessum verk­reglum," bætti hann við.

Héraðs­sak­sóknari á­kvað fyrr í þessum mánuði að fella niður rann­sókn á kyn­ferðis­brota­máli gegn Aroni Einari Gunnars­syni og Eggerti Gunn­þóri Jóns­syni.

Frétta­blaðið greindi frá því í síðustu viku að Vanda Sigur­geirs­dóttir, for­maður KSÍ, hefði ekki rætt við Aron Einar Gunnars­son eftir að héraðs­sak­sóknari felldi málið niður.

Að sögn Vöndu væru engar reglur sem banna Arnari Þór Viðars­syni að velja Aron í næsta verk­efni karla­lands­liðsins.

Uppfært 14:43: Fréttablaðið greindi frá því hálf þrjú í dag að konan sem kærði og sakaði knattspyrnumennina Aron Einar Gunnarsson og Eggert Gunnþór Jónsson um nauðgun árið 2010 í Kaupmannahöfn hefur kært niðurstöðu dómstóla um að fella málið niður. Þetta staðfestir Ómar Smárason, deildarstjóri samskiptadeildar KSÍ í samtali við Fréttablaðið.