Arnar las bók um jólin og lífið breyttist: 125 dagar í röð í þessari viku

Íþróttafréttamaðurinn og Húsvíkingurinn Arnar Björnsson þykir með þeim skemmtilegri í bransanum. Arnar hefur verið fastagestur á skjáum landsmanna undanfarna áratugi en hann hefur verið í ákveðinni lífstílsbreytingu undanfarin misseri sem skilað hefur góðum árangri.

Arnar segir svo frá á Facebook-síðu sinni:

„Það er góð regla að setja sér markmið. Ég veit það núna, loksins á gamals aldri. Um síðustu jól las ég bók Harukis Murakami: „Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup”, eins og hún heitir í íslenskri þýðingu frá 2016.“

Murakami, sem þykir með bestu núlifandi rithöfundum heimsins, segir frá því í bókinni hvernig hann fór að hlaupa og skráði sig meðal annars í New York-maraþonið.

„Hann undirbjó sig, hélt dagbók og skráði samviskulega vegalengdirnar sem hann lagði að baki. Þetta gleypti ég í mig. Eftir að Kóvídið lokaði og læsti ræktinni varð maður að finna einhverja lausn. Hún fólst í því að hreyfa sig úti,“ segir Arnar sem byrjaði að hlaupa hægt og rólega síðasta haust. Hann viðurkennir að hafa ekki gert það síðan hann var unglingur.

„Dag einn fór ég hraðar en venjulega með öðrum orðum þá hljóp ég. Þetta var skrítin en frábær tilfinning. Um áramótin hermdi ég eftir Murakami, skráði og skráði. Í dag náði ég því markmiði að klára þúsund kílómetra,“ sagði Arnar á Facebook-síðu sinni í fyrrakvöld.

Hann hefur farið út á hverjum einasta degi frá áramótum og hlaupa eða ganga – samtals 125 daga í röð. „Til þess að ná 8 kílómetrum að meðaltali, skilaði þessi fallegi dagur mér 16,6 kílómetrum,“ segir Arnar við fallega mynd sem hann birtir með færslunni.

„Tilfinningin að vera úti í náttúrunni er einstök. Kársneshringurinn minn er dásamlegur með smá krók í Fossvoginn. Ég hvet þá sem geta gengið eða hlaupið að gera það í dásamlegri íslenskri náttúru. Við getum alveg lifað þolanlegu lífi þó við förum ekki í ræktina, ég veit það amk núna,“ segir hann.