Anton selur glæsikerru sem var haldlögð í Rauðagerðismálinu

Anton Kristinn Þórarinsson athafnamaður sem um tíma sat í gæsluvarðhaldi vegna morðsins á Armando Beqiri hefur sett glæsibifreið sína á sölu. Um er að ræða jeppa af gerðinni Range Rover Sport en ásett verð er rétt tæpar 15 milljónir króna.

RÚV greindi frá því þann 19. febrúar síðastliðinn að lögregla hefði meðal annars lagt hald á Range Rover-jeppa Antons í tengslum við rannsókn málsins. Svo virðist vera sem Anton hafi fengið bílinn í hendurnar skömmu síðar því hann var skráður á söluskrá þann 17. mars síðastliðinn.

Eins og að framan greinir var Anton úrskurðaður í gæsluvarðhald ásamt mörgum öðrum einstaklingum. Þegar mest lét voru fjórtán einstaklingar í haldi vegna málsins.

Hann var látinn laus úr haldi þann 2. mars síðastliðinn en úrskurðaður í farbann. Eins og fram hefur komið hefur albanskur karlmaður játað að hafa skotið Beqiri fyrir utan heimili hans í Rauðagerði.

Hringbraut greindi frá því í fyrra að Anton hefði fengið byggingarleyfi á einni glæsilegustu sjávarlóð landsins við Haukanes í Garðabæ. Anton keypti hús á lóðinni af Rasmusi Rojkjaer, fyrrverandi forstjóra Alvotech á Íslandi, til niðurrifs á 110 milljónir króna en um var að ræða 288 fermetra einbýlishús í slæmu ástandi. Hann fékk svo samþykki í fyrravor hjá bæjarráði Garðabæjar fyrir endurbyggingu og stækkun hússins.

Bifreiðin sem Anton selur er einkar glæsileg eins og meðfylgjandi myndir sýna. Hún er 2019-árgerð, ekin 33 þúsund kílómetra og heil 404 hestöfl. Í bílnum eru leðursæti, nudd er í framsætum og þá eru skjáir í höfuðpúðunum svo farþegar aftur í geta stytt sér stundir á lengri ökuferðum.