Anna við það að gefast upp: Vinir hennar stappa í hana stálinu

Fjölmargir vinir og vandamenn Önnu Kristjánsdóttur á Tenerife hafa skorað á hana að halda áfram að birta sína daglegu pistla frá eyjunni fögru. Pistlar Önnu eru fastur punktur í tilveru margra vina hennar enda skemmtilega skrifaðir og húmorinn í fyrirrúmi.

Í nýjasta pistli sínum í morgun viðraði Anna þá skoðun sína að kominn væri tími til að hvíla sig á skrifunum. Það féll hins vegar ekki vel í kramið hjá aðdáendum hennar. Anna hefur birt einn pistil á dag á hverjum einasta degi frá því að hún flutti til Tenerife fyrir um tveimur árum.

„Ég er að gefast upp á þessum pistlaskrifum mínum. Ég stend mig að því að endurtaka mig hvað eftir annað, segja sömu sögurnar, tala um sama veðrið og sömu drykkjuna kvöld eftir kvöld. Raunveruleikinn er samt allt annar,“ sagði hún meðal annars og hélt áfram:

„Það er kominn tími til að hvíla skriftirnar og hætta að vakna klukkan 07:45 á morgnanna til að setja inn grútleiðinlegan pistil um veðrið, fólkið og hetjurnar okkar í Fótboltasamvinnufélagi Halifaxhrepps sem eru þessa dagana í þriðja sæti í fimmtu deild á Englandi. En sjáum til hvað gerist næstu dagana. Ég elska ykkur samt.“

Vinir og vandamenn Önnu hafa skorað á hana að halda áfram að skrifa eins og sjá má í athugasemdum undir færslunni. Hér eru til dæmis nokkrar af handahófi:

„Ekki hætta. Hvernig á ég ađ komast á fætur ef ég fæ engan pistil?“
„Kemur ekki til mála að þú hættir, þetta er alltaf mitt fyrsta verk að skoða pistlana þína.“
„Gengur ekki Anna að við missum af pistli dagsins. Haltu áfram.“
„Ekki hætta, þú gefur lífinu lit.“
„Nei, nei, haltu áfram Anna. Þú ert svo skemmtileg og lífgar upp á daginn hér á Facebook. Áfram þú.“