„Um daginn var ungur maður dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi fyrir vafasama aðild að eign á fjórtán kannabisplöntum. Stórsöngvararnir Bubbi og Pálmi gerðu athugasemdir við dóminn á samfélagsmiðlum sem og Grímur Atlason og furðuðu sig á dómhörkunni en einnig ég og fleiri í upphafi,“ skrifar Anna Kristjánsdóttir íbúi á Tenerife.
„Svo las ég dóminn. Pilturinn var á reynslulausn fyrir fáeina smáglæpi, aðallega fíkniefnalagabrot og umferðarlagabrot og átti að mig minnir eftir 397 daga af refsingu er hann hlaut reynslulausn sem þar að leiðandi bættust við dóminn fyrir hugsanlega fáeinar kannabisplöntur svo úr varð 15 mánaða dómur í heildina. Þannig má segja að hann hafi fengið einhverra mánaða dóm fyrir vafasama eignaraðild að fáeinum kannabisplöntum, en þrettán mánuðir voru ekkert annað en gamall dómur sem kom til framkvæmda vegna brota á reynslulausn með hinu vafasama eignarhaldi á kannabisplöntunum. Því má líta á refsinguna sem eðlilega, og þó!“ bætir Anna við sem rak upp stór augu þegar hún sá hver dæmdi.
„Þegar ég skoða dóminn í Landsrétti, sé ég strax nafn Símons Sigvaldasonar landsréttardómara, en hann er frægur að endemum fyrir dómhörku sína, enda talinn af mörgum refsiglaðasti dómari Íslands í dag og kannski í Íslandssögunni,“ skrifar Anna.
„Ég minnist þess er hann dæmdi nokkra skipsfélaga mína til þyngstu refsingar fyrir smygl á fáeinum flöskum af brennivíni og einhverju smáræði af tóbaki fyrir rúmum þremur áratugum síðan eftir þvingaðar játningar á borð við gæsluvarðhald í Sakadómi Reykjavíkur sáluga, himinhárra fjársekta, en fangelsisvistar til vara. Þernan okkar var ekki sátt og áfrýjaði til Hæstaréttar hvar hún var sýknuð, enda málið allt byggt á vafasömum kaupnótum á áfengi og tóbaki í Hamborg, en ekkert smygl fannst né sannaðist. Hver smyglar t.d. sígarettum af gerðunum HB og Kim til Íslands, velþekktar tegundir í Þýskalandi á þeim tíma en óþekktar á Íslandi svo nefnd séu dæmi um sumt af því sem átti að hafa verið smyglað,“ bætir Anna við.
„Til að fyrirbyggja allan misskilning, þá hefi ég aldrei prófað neitt sem ekki er selt opinberlega af hinu opinbera að bjór frátöldum, aldrei prófað kannabis né neitt sterkara, einungis leyfileg efni á borð við áfengi og tóbak en harður fangelsisdómur fyrir vafasama eignaraðild að fáeinum kannabisplöntum er samt eitthvað út úr kortinu.“
„Með þessu er ég ekki að reyna að fegra syndaregistur piltsins, en dómurinn er samt óvenju harður, sennilega vegna fyrri afreka piltsins og grunar mig að Símon Sigvaldason sé sá sem veldur dómhörkunni.
Hvað er þessi maður að gera í Landsrétti? Allavega myndi ég ekki vilja hafa hann sem aðstoðarmann í vélarúmi fengi ég að ráða,“ skrifar Anna að lokum.