Anna um dóminn sem er á allra vörum - rak upp stór augu þegar hún sá nafn dómarans

„Um daginn var ungur maður dæmdur í fimm­tán mánaða fangelsi fyrir vafa­sama aðild að eign á fjór­tán kanna­bis­plöntum. Stór­söngvararnir Bubbi og Pálmi gerðu at­huga­semdir við dóminn á sam­fé­lags­miðlum sem og Grímur Atla­son og furðuðu sig á dóm­hörkunni en einnig ég og fleiri í upp­hafi,“ skrifar Anna Kristjánsdóttir íbúi á Tenerife.

„Svo las ég dóminn. Pilturinn var á reynslulausn fyrir fá­eina smá­glæpi, aðal­lega fíkni­efna­laga­brot og um­ferðar­laga­brot og átti að mig minnir eftir 397 daga af refsingu er hann hlaut reynslulausn sem þar að leiðandi bættust við dóminn fyrir hugsan­lega fá­einar kanna­bis­plöntur svo úr varð 15 mánaða dómur í heildina. Þannig má segja að hann hafi fengið ein­hverra mánaða dóm fyrir vafa­sama eignar­aðild að fá­einum kanna­bis­plöntum, en þrettán mánuðir voru ekkert annað en gamall dómur sem kom til fram­kvæmda vegna brota á reynslulausn með hinu vafa­sama eignar­haldi á kanna­bis­plöntunum. Því má líta á refsinguna sem eðli­lega, og þó!“ bætir Anna við sem rak upp stór augu þegar hún sá hver dæmdi.

„Þegar ég skoða dóminn í Lands­rétti, sé ég strax nafn Símons Sig­valda­sonar lands­réttar­dómara, en hann er frægur að endemum fyrir dóm­hörku sína, enda talinn af mörgum ref­siglaðasti dómari Ís­lands í dag og kannski í Ís­lands­sögunni,“ skrifar Anna.

„Ég minnist þess er hann dæmdi nokkra skipsfélaga mína til þyngstu refsingar fyrir smygl á fá­einum flöskum af brenni­víni og ein­hverju smá­ræði af tóbaki fyrir rúmum þremur ára­tugum síðan eftir þvingaðar játningar á borð við gæslu­varð­hald í Saka­dómi Reykja­víkur sáluga, himin­hárra fjár­sekta, en fangelsis­vistar til vara. Þernan okkar var ekki sátt og á­frýjaði til Hæsta­réttar hvar hún var sýknuð, enda málið allt byggt á vafa­sömum kaup­nótum á á­fengi og tóbaki í Hamborg, en ekkert smygl fannst né sannaðist. Hver smyglar t.d. sígarettum af gerðunum HB og Kim til Ís­lands, velþekktar tegundir í Þýska­landi á þeim tíma en ó­þekktar á Ís­landi svo nefnd séu dæmi um sumt af því sem átti að hafa verið smyglað,“ bætir Anna við.

„Til að fyrir­byggja allan mis­skilning, þá hefi ég aldrei prófað neitt sem ekki er selt opin­ber­lega af hinu opin­bera að bjór frá­töldum, aldrei prófað kannabis né neitt sterkara, einungis leyfi­leg efni á borð við á­fengi og tóbak en harður fangelsis­dómur fyrir vafa­sama eignar­aðild að fá­einum kanna­bis­plöntum er samt eitt­hvað út úr kortinu.“

„Með þessu er ég ekki að reyna að fegra synda­registur piltsins, en dómurinn er samt ó­venju harður, senni­lega vegna fyrri af­reka piltsins og grunar mig að Símon Sig­valda­son sé sá sem veldur dóm­hörkunni.
Hvað er þessi maður að gera í Lands­rétti? Alla­vega myndi ég ekki vilja hafa hann sem að­stoðar­mann í véla­rúmi fengi ég að ráða,“ skrifar Anna að lokum.