Anna tók frá­bæra á­kvörðun fyrir 20 árum: „Án þess væri ég ekki lifandi í dag“

6. ágúst 2020
16:12
Fréttir & pistlar

Anna Kristjáns­dóttir, íbúi á Tenerife, hefur tvær á­stæður til að fagna í dag. Annars vegar á elsta dóttir hennar af­mæli en svo er það annað af­mæli sem tengist Önnu prívat og per­sónu­lega.

„Það er annað stór­af­mæli sem mig langar til að fjalla um hér sem er mér mjög mikil­vægt því án þess væri ég ekki lifandi í dag. Í dag eru nefni­lega liðin 20 ár síðan ég hætti að reykja, en ég valdi þennan dag til að hætta í til­efni þess að dóttir mín á af­mæli í dag,“ segir Anna í pistli á Face­book-síðu sinni en pistill hennar hefur vakið tals­verða at­hygli.

Í pistlinum segir hún að það hafi verið í júní árið 2000 sem hún á­kvað að hætta. „Ég hafði fundið fyrir léttum þyngslum fyrir brjósti og óttaðist að þetta væri byrjun á lungna­þembu, enda hafði ég verið stór­reykinga­manneskja í 30 ár.“

Anna hafði komist að því að frænka hennar væri illa haldin af lungna­þembu og varð það til þess að hún á­kvað að hætta. Anna fer svo yfir það hvernig hún hætti að reykja. Hún hafði heyrt að besta leiðin væri að á­kveða að hætta væri með nokkrum fyrir­vara. Fór svo að hún á­kvað að hætta þann 6. ágúst klukkan 12 á há­degi.

„Svo rann upp ör­laga­dagurinn. Ég var í fríi frá vinnunni, var ekki líka þjóð­há­tíð? Þegar kom að há­degi átti ég enn hálfan pakka af sígarettum og ekki gat ég hætt að reykja með öll þessi verð­mæti í höndunum. Næstu þrjá tímana keðju­reykti ég og klukkan 15:00 kláraði ég úr pakkanum, drap í og hefi síðan ekki reykt. Um leið og ég hafði slökkt í síðustu sígarettunni skellti ég á mig tveimur sterkum nikó­tín­plástrum og byrjaði að nota nikó­tín­tyggjó eins og enginn væri morgun­dagurinn.“

Anna segir að næstu mánuðir hafi gengið með erfiðis­munum, en gengið samt án þess að hún félli.

„Ég smá­minnkaði hjálpar­efnin, hætti með plásturinn eftir þrjá mánuði og fór úr 4 mg tyggjói í 2 mg um ára­mót og gafst svo upp á jórtrinu um mánuði síðar, eða sex mánuðum eftir að ég hætti að reykja.“

Anna segir svo frá því að þegar hún hætti að reykja hafi hún á­kveðið að prófa eina sígarettu að ári liðnu eftir að hún hætti. „Þegar liðið var ár treysti ég ekki sjálfri mér til að reykja þessa sígarettu. Ég fann að fyrsta sígarettan væri fall. Ég var ekki reiðu­búin að falla fyrir sígarettunni. Nú eru liðin 20 ár og ég treysti mér ekki enn til að prófa eina sígarettu. Ég viður­kenni að ég var og er nikó­tín­isti, fíkill á því sviði og játa van­mátt minn.“

Anna segir að lungun hafi aldrei jafnað sig að fullu eftir reykingarnar þó þau séu vitan­lega betri núna en þau voru þegar hún hætti. „En ég játa að þau hafa aldrei jafnað sig að fullu. Ég á enn erfitt með að ganga á fjöll, en ég reyni mitt besta.“

Anna endar svo pistilinn á þeim orðum að frænka hennar hafi dáið úr lungna­þembu í febrúar árið 2006. „Megi ör­lög hennar verða okkur hinum hvatning til að hætta að reykja,“ segir hún að lokum.