„Nú er það ekki ætlan mín að starta milliríkjadeilum en þurfum við ekki aðeins að ræða Norðmenn? Þessa almennt guðhræddu, gönguskíðandi, brúnostsnestisborðandi öðlinga. Frændur vora.“
Svona hefjast bakþankar Önnu Sigrúnar Baldursdóttur í Fréttablaðinu í dag.
„Íslendingar eiga í haturs-ástarsambandi við Dani og maðkaða mjölið verður seint fyrirgefið. En einhverra hluta vegna hefur norskur lukkuriddaraher náð að fljóta undir radarinn í gegnum aldirnar og náð til sín miklum auðlindum á Íslandi og arðinum af þeim, auðvitað almennt sem aufúsugestir Íslendinga sem molana þeirra hirða.“
Anna Sigrún segir að allt hafi þetta byrjað með Geirmundi Heljarskinni sem mætti á Vestfirði og hreinsaði upp rostungastofninn og hirti ágóðann. Sparaði sér skattinn eins og aðrir landnámsmenn.
„Næst spurðist til Norðmanna um miðja 19. öld þar sem þeir hófu stórfelldar síldveiðar við Ísland, svo hvarf síldin og Norðmenn fóru heim með gróðann. Og hvalveiðarnar, maður minn! Eitthvert píp heyrðist um að hagur landsmanna væri fyrir borð borinn því skattar og tollar væru of lágir, en frændur vorir ypptu öxlum, kláruðu hvalinn og hirtu monnípeninginn.“
Anna Sigrún segir að enn séu þeir mættir, norsku lukkuriddararnir.
„Nú er það eldislax og sjókvíar sem helst á að koma fyrir í hverjum firði og innlendir talsmenn predika um afleidd störf, enda ekki mörg sjálfbær eða eiginleg störf í þessum iðnaði, frekar en öðrum umsvifum Norðmanna hér á landi í gegnum tíðina. Ísland er bara Kvikk lunsj.“
Anna Sigrún veltir fyrir sér hvers vegna við unnum Norðmönnum þess að hreinsa upp auðlindir okkar og gera þeim skattaforðun mögulega. Það sé henni hulin ráðgáta.
„Og þó. Þetta eru jú frændur okkar og það er svo svakalega margt líkt með skyldum. Við erum sjálf Norðmenn. Spegill.“