Anna Sigrún: Er ekki eitthvað bogið við þetta?

„Við erum ó­trú­lega lán­söm að eiga björgunar­sveitar­fólk að, en auð­vitað er eitt­hvað öfug­snúið við að við reiðum okkur á sjálf­boða­vinnu fólks fyrir sjálf­sagða inn­viði,“ segir Anna Sigrún Baldursdóttir, framkvæmdastjóri skrifstofu forstjóra Landspítala og bakþankahöfundur Fréttablaðsins, í pistli á baksíðu blaðsins í dag.

Þar gerir hún eldgosið í Meradölum að umtalsefni og verkefni björgunarsveita samhliða gosinu. Gosið fangar athygli Íslendinga sem og erlendra ferðamanna sem eru hér á landi og vilja margir berja gosið augum. Það hefur haft í för með sér stóraukið álag á björgunarsveitir sem sinna starfi sínu í sjálfboðavinnu.

„Eðli­lega fagna ferða­þjónustu­aðilar mögu­leikum til vaxtar eftir erfið ár þótt helst sé að skilja á ein­hverjum full­trúum greinarinnar að eld­gosið hafi nú ekki komið á heppi­legum tíma því Ís­land var upp­selt. Jarð­skorpunni verður væntan­lega sent minnis­blað með til­mælum um að tíma­setja óróa sinn betur,“ segir Anna.

Hún bætir við að ferða­mennirnir láti sig samt hafa það að nýta sér að nú gýs, þó að þeir hafi ekki pantað sér frí hér í til­efni jarð­hræringa. Bendir hún á að eins og svo sem ýmsir landar okkar fari þeir van­búnir á galla­buxum og striga­skóm í sína svaðil­för.

„Og hvað gerum við þá til að vernda líf og limi þessara gesta? Jú, teflum fram björgunar­sveita­fólki án vald­heimilda í sjálf­boða­vinnu. Þessu fólki er ætlað að hvetja ferða­langa til að fara sér nú ekki að voða, en fólki er það auð­vitað í sjálfs­vald sett. Það er svo þetta sama björgunar­sveita­fólk sem gengur yfir urð og grjót til að bera slasaða ferða­langa niður aftur í þoku og sudda.“

Anna Sigrún segir að við séum ótrúlega lán­söm að eiga björgunar­sveitar­fólk að, en auð­vitað sé eitt­hvað öfug­snúið við að við reiðum okkur á sjálf­boða­vinnu fólks fyrir sjálf­sagða inn­viði.

„Með auknum ferða­manna­straumi hefur reynt veru­lega á ýmsa inn­viði án þess að því hafi verið mætt af nægum krafti. Þetta gildir um vega­kerfið okkar, lög­gæslu og ýmiss konar eftir­lit og að ég tali nú ekki um heil­brigðis­þjónustuna. Þetta er ekki sjálf­bær nálgun og verður ekki mætt með flug­elda­sölu og sjálf­boða­vinnu heldur eðli­legu fram­lagi í sam­eigin­lega sjóði. Þannig er það nú bara.“