Anna lýsir því hvernig bróðir hennar rétt slapp við að vera á togara sem fórst: „Stundum á að taka mark á skilaboðum sem fólki berast að handan“

Anna Kristjáns­dóttir, íbúi á Tenerife, spyr hvort við eigum ekki að treysta inn­sæinu í nýjum pistli á Face­book í dag.

„Elsti bróðir minn var talinn skyggn sem barn og ung­lingur. Sem barn sá hann gamlan mann við hús gamallar ekkju sem bjó við Loka­­stíg í Reykja­­vík og þegar hann lýsti manninum passaði lýsingin við eigin­manninn sáluga. Þegar hann var sau­tján ára ætlaði hann að fara á togara frá Hafnar­­firði, en sem lagði úr höfn frá Reykja­­vík á­­leiðis á Ný­fundna­land­smið. Þegar hann var kominn niður á bryggju á­­samt móður­bróður okkar og ná­granna sem báðir voru á skipinu, greip hann svo mikill ó­­hugnaður að hann fór ekki með skipinu og skammaður af pabba eftir að heim var komið fyrir að svíkjast um gott pláss,“ skrifar Anna.

„Togarinn Júlí frá Hafnar­­firði kom aldrei aftur til hafnar, fórst á Ný­funda­land­smiðum 8-9 febrúar 1959 með 30 manna á­höfn, með honum móður­bróðir minn og ná­granninn í næsta húsi, en elsti bróðir minn fékk næstum því sex ára­tugi af lífi eftir þetta, en lést í desember 2018. Stundum á að taka mark á skila­­boðum sem fólki berast að handan, þótt þau virki fá­rán­­leg í byrjun.“

„Á­­stæða þess að ég rifja þetta upp núna, er að þessa dagana dvelja hjá mér ætluð systir mín og yndis­­legur hundurinn hennar, sjálfur Texas el Per­ró, stundum einnig kallaður Kálf­­mundur Eyrna­­stór. Haustið 2020 var mér falin gæsla hans á meðan eig­andinn skrapp til Ís­lands í nokkra daga. Ekkert mál hélt ég, fór með bælið hans inn í gesta­her­bergið og vildi fá hann þangað inn því ekki kærði ég mig um stóran hundinn inn í mitt her­bergi. Hann neitaði, vildi alls ekki fara inn í her­bergið, endaði með því að ég dró hann þangað inn og lokaði dyrunum. Hann svaraði með því að pissa á gólfið, var alls ekki kátur. Þessa ellefu daga sem Lilja systir var á Ís­landi svaf hann eftir þetta í stofunni, enda neyddist ég til að færa bælið hans fram í stofu eftir þetta og lét hann sér það vel líka.“

„Fyrir nokkrum dögum síðan missti Lilja hús­­næðið sem hún hafði leigt og flutti til mín með Texas el Per­ró á meðan hún leitar sér að öðru hús­­næði. Að sjálf­­sögðu fór hún í gesta­her­bergið, en þegar hún fór að sofa og ætlaði að taka Texas el Per­ró með sér þangað inn, harð­neitaði hann að fara inn í her­bergið þótt Lilja væri þar. Að endingu lagðist hann til svefns á stofu­gólfinu og læddist svo inn til mín um nóttina og svaf undir mínu rúmi. Þannig hefur á­standið verið eftir þetta. Lilja sefur í gesta­her­berginu en Texas el Per­ró undir rúminu mínu.
Ég kann enga skýringu á hegðun hundsins, hann svo yndis­­lega ljúfur og hlýðinn alla daga, en inn í þetta her­bergi fer hann alls ekki. Þarna er ein­hver bölvun sem hann skynjar, en við mann­­fólkið alls ekki.Eigum við ekki að trúa inn­­sæinu?“ skrifar Anna að lokum.