Anna lætur áhrifavaldana heyra það: „Fólkið sem kallar sig áhrifavalda í dag eru ekkert annað en ...“

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife tjáði sig um áhrifavalda í pistli sem birtist á Facebook fyrr í dag.

„Ég heyrði ávæning af viðtali á Rás 2 í gær við einn svokallaðan áhrifavald þar sem hann (hún) kvartaði yfir skorti á reglum fyrir áhrifavalda. Vesalings áhrifavaldarnir.“

Líkt og eflaust allir hafa tekið eftir er hugtakið „áhirfavaldur“ gjarnan notað í dag yfir fólk sem er vinsælt á samfélagsmiðlum, og jafnvel lifir á þeim. Anna vill meina að um sé að ræða rangnefni.

„Ég hugsa með skelfingu til þess ef settar hefðu verið reglur fyrir áhrifavalda fyrri tíma, fólk á borð við Mahatma Gandhi, Jesús Krist, Vigdísi Finnbogadóttur, Magnus Hirschfeld og Hörð Torfaon. Þau voru/eru alvöru áhrifavaldar. Fólk sem lét sig samfélagið varða og bað ekki um greiðslur fyrir að sýna manngæsku sína og virðingu fyrir mannréttindum.“

Þetta segir Anna sem bætir við að henni finnist áhrifavaldar dagsins í dag ekki vera neitt annað en auglýsendur.

„Fólkið sem kallar sig áhrifavalda í dag eru ekkert annað en auglýsendur og eiga að kalla sig auglýsendur sem selja sig eða vörur og þjónustu fyrir peninga. Ekki áhrifavalda. Ég las um eina íslenska stelpu sem selur kynlífsmyndbönd af sjálfri sér á einhverjum vefmiðli sem ég man ekki í augnablikinu hvað heitir. Er hún þá ekki líka áhrifavaldur eins og stelpurnar með andagogginn samkvæmt nýju skilgreiningunni?“

Í lok færslu sinnar slær Anna á létta strengi og leggur til að hún gerist sjálf áhrifavaldur.

„Ég ætti kannski að gera þetta líka, 500 grömm í hvort brjóst, fá mér andagogg svo ég líti út eins og Andresína önd, byrja að selja aðgang að pistlunum mínum og kalla mig áhrifavald? Æ nei. Ég held ekki. Þá færi ánægjan fljótt af pistlaskrifunum mínum.“