Anna Kristjáns dauð­þreytt: Hefur sam­úð með hundaeigendum

Anna Kristjáns­dóttir sem bú­sett er á Tenerife hefur lent í ó­fáum ævin­týrum eftir að hún flutti á eyjuna fögru fyrir nokkrum misserum.

Hún heldur fylgj­endum sínum á Face­book upp­lýstum um gang mála og að undan­förnu hefur hún leitt þá í allan sann­leikann um það hvernig það er að vera með stóran hund á heimilinu. Hundurinn Texas El Per­ró, sem er í eigu systur hennar, var í pössun hjá henni í ellefu daga og ef marka má færslu Önnu í morgun ætlar hún aldrei að eignast stóran hund sjálf.

„Ellefu daga þrot­lausri vinnu með hund er lokið,“ segir Anna sem kveðst lifa nú í sælu­draumi en jafn­framt horfa með vor­kunn­semi á þá hunda­eig­endur sem eru að reyna að láta hundana sína gera stykkin sín áður en farið er heim að sofa.

„Sjálf fæ ég að neyta morgun­matarins í friði án þess að Snati reyni að éta hann frá mér,“ segir Anna sem kveðst finna að stórir hundar verði aldrei hluti af hennar fjöl­skyldu.

„Enda var ég dauð­þreytt eftir þessa ellefu daga. Því­lík vinna að hugsa um svona stóran hund í ellefu daga. Núna ætla ég að njóta þess að sofa út, drekka morgun­kaffið á réttum tíma og setja inn pistlana mína fyrir klukkan níu án þess að slefandi hundur sé að rit­skoða yfir axlirnar á mér. Með þessum orðum votta ég eig­endum stórra hunda alla mína sam­úð.“