Anna Kristjáns biðst afsökunar: „Íslendingar eru hættir að vilja koma hingað“

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife, segist vera alveg miður sín í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í morgun. Yfirskrift pistilsins er Afsökunarbeiðni.

„Ég er alveg miður mín. Ég er búin að tala svo niður veðrið í Paradís að Íslendingar eru hættir að vilja koma hingað. Þannig komu einungis tvær vélar í fyrradag, þar af önnur frá Akureyri og var það lítil Airbus 319. Hin var Max vél frá Neos. Í gærkvöldi kom svo lítil Airbus 320 frá Play og engin frá Icelandair,“ segir Anna.

Hún segir að það sé af sem áður var þegar það komu iðulega tvær vélar frá Icelandair, þá önnur annað hvort 757-300 eða 767 og Airbus 321 vél frá Play.

„Þetta er auðvitað allt mér að kenna því ég hefi verið svo dugleg að segja frá kuldanum og skýjafarinu á Tenerife að fólk velur frekar að fara eitthvert þangað sem von er á meiri hlýindum, eins og Tromsö og Longyearbyen,“ segir Anna sem gerði góða veðrið í Norður-Noregi að umtalsefni í pistli á dögunum. Var staðan þannig um tíma að meiri hlýindi voru í Tromsö en á Tenerife sem heyrir til tíðinda.

„Ég verð því að biðja sólarlandaferðalangana afsökunar á veðrinu hérna og óska þess að þeir komi sem fyrst aftur. Ég lofa svo betra veðri um miðja næstu viku,“ segir Anna sem segir að kuldinn hafi þó ekki bara slæm áhrif.

„Eitt má þessi kuldi að undanförnu eiga. Ég hefi ekki séð lifandi kakkalakka í marga mánuði, er reyndar óskaplega fegin að vera laus við þá. Ekki get ég kennt eðlunni minni henni Ellu um kakkalakkaleysið því hún lifir helst á smámaurum og litlum flugum. Ég veit reyndar að kakkalakkarnir eru víða hér á eyjunni, þá helst í hótelherbergjum hvar kakkalakkahræddir Íslendingar halda til. Hér í íbúðakjarnanum er hinsvegar eitrað mánaðarlega svo þeir eiga erfitt uppdráttar, en svo hefur kuldinn síðustu tvö ár haft sitt að segja við að fækka þeim,“ segir Anna sem endar pistilinn á þessum orðum:

„Ég vona svo að íslenska þjóðin hafi samþykkt afsökunarbeiðni mína því annars fer ég í fýlu.“