Anna Kol­brún: Gæti endað með því að látnir ást­vinir verði sendir til út­landa

6. ágúst 2020
20:42
Fréttir & pistlar

„Getur verið að endirinn verði að að­stand­endur verði að flytja látinn ást­vin til út­landa til þess að upp­fylla hinstu ósk við­komandi?“

Þessari spurningu varpar Anna Kol­brún Árna­dóttir, þing­maður Mið­flokksins, fram í að­sendri grein í Morgun­blaðinu í dag. Þar skrifar hún um bál­farir og bendir á að fleiri og fleiri velja bál­för við and­lát. Er nú svo komið að um 40% kjósa bál­farir og hefur þeim fjölgað á liðnum árum.

Anna Kol­brún bendir á að bál­stofan í Foss­vogi sé eina bál­stofan í landinu. Hún sé rekin á undan­þágu bæði frá Vinnu­eftir­litinu og Heil­brigðis­eftir­litinu.

„Sagt var frá því í fjöl­miðlum seint á síðasta ári að hætta væri á því að brennslu­ofnarnir gætu fallið saman enda eru þeir rúm­lega 70 ára og brýn þörf á að endur­nýja þá ef ekki á að fara illa. Bent hefur verið á að það stefni í al­gert ó­efni, við­varanir hafa verið gefnar en enn þá hefur ekki verið brugðist við eða með öðrum orðum: reynt hefur verið að vekja at­hygli á al­var­legri stöðu án árangurs.“

Anna Kol­brún segir að eins og staðan er núna standi bál­för ekki öllum lands­mönnum til boða nema þá með ærnum flutnings­kostnaði. Þess vegna komi ekki á ó­vart að tals­verður munur sé á því eftir bú­setu hvort fólk velur hefð­bundna út­för eða bál­för, fleiri bú­settir á höfuð­borgar­svæðinu kjósa bál­för.

„Það skal þó sagt að í­búar lands­byggðar þurfa ekki að greiða fyrir bál­förina sjálfa en það breytir ekki því að eina bál­stofa landsins er í Reykja­vík og það liggur því tölu­verður auka­kostnaður í því að flytja kistu þangað annars staðar frá af landinu. Það er í höndum að­stand­enda að flytja kistuna eða fá annan aðila til þess. Ef kista fer í flug frá Akur­eyri til Reykja­víkur kostar það um 45 þúsund krónur og svo bætist við kostnaður við flutning frá flug­velli til lík­húss,“ segir Anna Kol­brún sem endar pistil sinn á þessum orðum:

„Stjórn­völd verða að hlusta á að­varanir, setja verður upp við­unandi og lög­lega að­stöðu til bál­fara á fleiri en einum stað á landinu. Það þarf ekki allt suður.“