Anna Karen svarar: „Það er eins og megi ekki ræða staðreyndir“

„Ég skilgreini þetta ekki sem rasisma,“ segir Anna Karen Jónsdóttir, hagfræðingur, í samtali við Mannlíf. Pistill hennar í Morgunblaðinu í dag hefur vakið harða gagnrýni á samfélagsmiðlum í dag.

Í pistlinum, sem ber heitið „Ras­ismi og af­fjár­mögnun lög­reglu“ fer Anna hörðum orðum um Black Lives Matter hreyfinguna og segir það liggja í augum uppi að hreyfingin sé til þess fallin að eyði­leggja vest­ræn gildi og vest­ræn sam­fé­lög.

Sjá einnig: „Óska þess inni­lega að þetta sé ekki raun­veru­leg manneskja sem skrifar svona“

Þá gerir Anna Karen lítið úr fjölda þeirra svartra ein­stak­linga sem myrtir eru af lög­reglunni í Banda­ríkjunum. „Þrátt fyrir að vera bara 13,4% þjóðinnar þá eru svartir í lang­flestum til­fellum yfir­gnæfandi meiri­hluti af­brota­manna,“ skrifar Anna.

Í samtali við Mannlíf segist hún telja réttindabaráttu svartra, Black Lives Matter, vera kommúnistahreyfingu og því slæma. „Ég vil ekki kommúnisma, ég vil ekki kommúnisma,“ margendurtók Anna Karen.

„Þetta er staðreynd. Það er eins og megi ekki ræða staðreyndir. Það er eins og það sé eitthvað í menningunni þeirra,“ sagði hún aðspurð um hvort hún telji svarta Bandaríkjamenn frekar vera glæpamenn en aðra.