Anna ber saman kostnaðinn við að eiga bíl á Íslandi og Tenerife – Hlegið að Íslendingum

Anna Kristjánsdóttir, íbúi á Tenerife, segir að töluverður munur sé á því að eiga bíl á Íslandi annars vegar og Tenerife hins vegar. Umræða um meiri gjaldtöku á bifreiðaeigendur hér á landi hefur verið fyrirferðarmikil að undanförnu.

„Ég var að lesa einhverjar kvartanir á Facebook yfir ætluðum nýjum ofurgjöldum á bifreiðaeigendur á Íslandi sem virðast vera samdar í Valhöll og í anda Gísla Marteins og félaga hans í bílahatarafélaginu. Ég á erfitt með tjá mig um bifreiðagjöldin sem þegar eru orðin alltof há á Íslandi, hvað þá ætluð veggjöld jafnvel innan höfuðborgarsvæðisins, enda bý ég í Paradís þar sem allt er innan skynsemismarka þó að fráskildum alltof fáum bílastæðum á vinsælum túristasvæðum,“ segir Anna í færslu sem birtist á Facebook í morgun.

Hún bendir á að hún hafi tekið bensín á Mercedes Benz-bireið sína í gær og reitt 169 krónur fyrir lítrann. Og fyrir tveimur mánuðum greiddi hún bifreiðaskatt fyrir bíl sinn, tveggja tonna lúxusbíl með rúm 300 hestöfl undir húddinu, og hljóðaði hann upp á 20 þúsund krónur fyrir árið.

„Ég greiddi tryggingarnar fyrir Mjallhvíti í ágúst heilar 460€ fyrir árið eða tæpar 65,000 krónur, en ég er líka með 350€ sjálfsábyrgð af kaskótryggingunni.“

Anna segir að í Paradís – eins og hún kallar Tenerife – kosti ekkert að leggja í bílastæði víðast hvar en þau mættu þó vera fleiri. Það kostar þó að leggja í bílastæðahúsum en ekkert sem skiptir máli.

„Þú þarft þó ekki að greiða fyrir bílastæði við verslunarmiðstöðvar, en stæðin mættu alveg rúma stærri bíla en Fiat 500. Einustu bílastæðin sem greiða þarf fyrir utandyra sem mér er kunnugt eru við flugvellina. Ég átti erindi á suðurflugvöllinn í gærkvöldi og dvaldi þar í rúman hálftíma og það kostaði mig rúma evru. Helvítis okur,“ segir hún.

Hún segir að suðurhluti Tenerife sé einnig dásamlegur að því leyti að það eru næstum engin umferðarljós – og þó.

„Á horninu á Avenida Amsterdam og Avenida Juan Carlos 1 í Los Cristianos eru nefnilega umferðarljós og margir bílstjórar virðast vart vita hvernig á að nota þau enda óvanir slíkum fyrirbærum. Í Paradís hlæjum við að vandamálum þeim sem herja á íbúa Norðureyjar (Íslands), en mest hlæjum við að fjármálaráðherranum sem ku stjórna ráðuneytinu til hagsbóta fyrir foreldra sinna rétt eins og kollegi hans í Norður-Kóreu.“