Andlát: Andrés Indriðason

Andrés Indriða­son, frum­­kvöðull á sviði ís­­lenskr­ar dag­­skrár­­gerðar í sjón­­varpi, er lát­inn, 78 ára að aldri. Andrés lætur eftir sig eigin­konu, Val­gerði Ingi­mars­dóttur, og dæturnar Ester og Ástu.

Andrés Indriða­son fædd­ist í Reykja­­vík 7. ág­úst 1941. Hann starfaði sem blaða­maður, kenn­ari, dag­­skrár­­gerðar­maður í út­­varpi og sjón­­varpi, við kvik­­mynda­­gerð og rit­störf. Hann hef­ur einnig þýtt fjölda bóka og þætti fyr­ir Sjón­­varpið.

Andrés varð stúd­ent frá Mennta­­skól­an­um í Reykja­­vík 1963 og stundaði ensku­­nám við Há­­skóla Ís­lands 1963-64. Hann nam kvik­­mynda­­gerð og dag­­skrár­­gerð fyr­ir sjón­­varp í Á­rós­um og Kaup­manna­höfn 1965 og 1966. Hann vann sem dag­­skrár­­gerðar­maður hjá Sjón­­varp­inu frá stofn­un þess árin 1966-85. Frá 1985 starfaði hann sem rit­höf­und­ur, og vann sam­hliða sjálf­­stætt að dag­­skrár­­gerð í Sjón­­varp­inu. Einnig vann hann að kvik­­mynda­­gerð sem leik­­stjóri og hand­­rits­höf­und­ur. Hann var m.a. upp­­töku­­stjóri og um­­­sjón­ar­­maður Gettu bet­ur í 25 ár og hlaut fyr­ir það Eddu­verð­laun­in.

Andrés skrifaði meira en 30 skáld­­sög­ur og tugi leik­­verka fyr­ir út­­varp, sjón­­varp og leik­­svið, t.d. Þjóð­leik­húsið og Kópa­vogs­­leik­húsið. Fyrsta bók hans, Lykla­barn, hlaut fyrstu verð­laun í barna­­bóka­­sam­­keppni Máls og menn­ing­ar árið 1979. Önnur bók hans Polli er ekk­ert blá­­vatn hlaut verð­laun Fræðslu­ráðs Reykja­vík­ur sem besta frum­­samda bók­in árið 1981. Fyr­ir bók­ina Það var skræpa hlaut Andrés verð­laun Náms­­gagna­­stofn­un­ar í sam­­keppni um létt les­efni fyr­ir börn árið 1984. Bæk­ur hans hafa verið gefn­ar út í Þýska­landi, Sviss, Aust­ur­­ríki og Dan­­mörku.

Út­varps­­leik­­rit Andrés­ar hafa verið flutt alls staðar á Norður­lönd­un­um og í Bret­landi og leikn­ar sjón­­varps­­mynd­ir hans fyr­ir börn hafa verið sýnd­ar víða um heim. Einnig gerði hann leikn­ar kvik­­mynd­ir fyr­ir börn á veg­um Náms­­gagna­­stofn­un­ar, skrifaði hand­­rit og leik­­stýrði, og eru mynd­irn­ar notaðar sem kennslu­efni, hér­­lend­is og er­­lend­is.

Andrés skapaði ást­­sælu brúðuper­­són­urn­ar Glám og Skrám sem birt­ust í leik­þátt­um í Stund­inni okk­ar. Einnig samdi hann sögu- og söng­­text­ana á hljóm­­plöt­unni Glám­ur og Skrám­ur í sjö­unda himni 1979.

Andrés skrifaði og leik­­stýrði fjöl­­skyldu­­mynd­inni Veiði­ferðinni sem frum­­sýnd var árið 1980 og er enn í dag ein mest sótta kvik­­mynd sem gerð hef­ur verið hér­­lend­is.

Andrés læt­ur eft­ir sig eig­in­­konu, Val­­gerði Ingi­mars­dótt­ur. Dæt­ur þeirra eru Ester, f. 1973, og Ásta, f. 1976. Barna­börn­in eru þrjú.