Amma dæmd til að eyða myndum af barnabörnunum á Facebook

Óvenjulegt mál hefur nú verið til lykta leitt fyrir dómstólum en það snerist um það hvort ömmu einni hafi verið heimilt að birta myndir af barnabörnum sínum á Facebook.

Málið kom til kasta dómstóla í Hollandi. Forsaga málsins er sú að amma barnanna hafði tekið myndir af barnabörnunum og birt á sinni persónulegu Facebook-síðu. Dóttir konunnar og móðir barnanna var ekki sátt við þetta og bað móður sína vinsamlegast um að fjarlægja myndirnar. Hún varð ekki við þeirri beiðni þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þess efnis og ákvað móðirin í kjölfarið að höfða mál.

Nú hefur dómstóll í Hollandi kveðið upp úrskurð þess efnis að amman verði að fjarlægja myndirnar þar sem hún hafði ekki leyfi frá forráðamönnum barnanna, sem eru ólögráða, til að birta þær á opinberum vettvangi. Ef hún verður ekki við þessari beiðni mun hún sæta dagsektum, að því er segir í frétt BBC.

Úrskurðurinn er byggður á almennu persónuverndarreglugerðinni (e. General Data Protection Regulation), reglugerð Evrópusambandsins um persónuvernd einstaklinga. Reglugerðin tók gildi fyrir tveimur árum og var markmið hennar að gefa einstaklingum aukna stjórn á eigin gögnum, til dæmis á netinu.

„Ég held að þessi úrskurður gæti komið einhverjum á óvart og fengið fólk til að hugsa áður en það birtir myndir á samfélagsmiðlum,“ segir lögfræðingurinn Neil Brown í samtali við BBC.