Alvarlega veik stúlka fær engin svör frá Landspítalanum um hvort hún komist að

Móðir stúlku sem er alvarlega veik af átröskun segir að dóttir sín fái enga aðstoð frá Barna- og unglingageðdeild Landspítalans, fram kom í fréttum RÚV að í mars hafi læknir sent bréf á spítalann, fimm mánuðum síðar hafi læknirinn fengið bréf um að haft yrði samband eftir hálft ár um hver staðan væri. Stúlkan hefur þjáðst af átröskun í tvö ár nú.

Faðir annarrar stúlku með átröskun segir að sjúkdómurinn stigmagnist.

„Við fengum viðtal við geðlækni sem staðfesti svo sem okkar grun að þetta væri alvarlegt mál og fær tilvísun inn á BUGL. Síðan hefur ekkert gerst þaðan. Við höfum ítrekað hringt þarna inneftir,“ segir hann. Þegar hann hringir sé lofað að hringja til baka, en það gerist aldrei.

„Á sama tíma sér maður henni hraka hratt og örugglega. Í raun og veru er maður bara að leita eftir einhverjum upplýsingum, hvort við séum að bíða í tvær vikur, þrjár vikur, sex mánuði eða 20 mánuði eins og það virðist vera orðið núna. En það koma engin svör, bara ekki neitt.“

Stúlkan er alvarlega veik, hún er hætt á blæðingum og er haldin miklum kvíða.